Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Úrvinnsla á hinu óumflýjanlega

Mynd: - / Forlagið

Úrvinnsla á hinu óumflýjanlega

24.11.2020 - 15:01

Höfundar

„Þrátt fyrir húmorinn og íronískar þversagnirnar er þetta samt saga um sorg og frásögnin sjálf er einhvern veginn eins og úrvinnsla á hinu óumflýjanlega,“ segir Gauti Kristmannsson um skáldsöguna Dauða skógar eftir Jónas Reyni. „Hún er eins og samningur við hverfulleika lífsins, manns sjálfs, ástvina og meira að segja jarðarinnar.“

Gauti Kristmannson skrifar:

Heimurinn gengur ekki heill til skógar. Hvorki heimurinn né við. Þannig má skilja þessa frásögn úr höfði manns í ótilgreindum bæ úti á landi þar sem örveröld sögumanns endurspeglar stórveröld heimsins. Ekki vantar að sú síðarnefnda sé til umræðu, ein sögupersóna er mjög upptekin af hnattrænni hlýnun og öðrum vandamálum stórveraldarinnar, en söguhetjan, ef svo skyldi kalla, er uppteknari af vandamálum örveraldar sinnar, hjónabandinu, börnunum, veikum föður sínum og öðrum nærtækum, eins og til að mynda skógarlundi sem faðir hans og hann höfðu ræktað í hlíðinni skammt frá heimili þeirra. Skógurinn er tákn fyrir allt sem er að fara úrskeiðis, enda eru undirstöður hans sprengjur úr síðari heimsstyrjöld, sprengjur sem í ljós koma þegar endalaust rigningaveður verður til þess að hann flæðir bókstaflega niður hlíðina í aurskriðu.

Frásögnin er í fyrstu persónu samtíðar og fortíðar, ofið er saman atburðarás og vangaveltum sögumanns í núinu við fortíðina og þannig nær höfundur að byggja upp frásagnartöf sem er nákvæmlega skömmtuð og heldur lesandanum við efnið, heldur í hann, örlög þessa fólks fara að skipta okkur máli, ekki síst af því að þau eru nokkuð almenn fyrir marga Íslendinga í millistétt, þótt lífsbaráttan sé ekki eins hörð og áður fyrir sögumanninn þegar þarna er komið sögu, því hann hefur selt gott fyrirtæki, sem hann byggði upp, fyrir ágæta fjárhæð, sýnist manni, hann er ekkert forríkur, en virðist eiga vel til hnífs og skeiðar. Þrátt fyrir að frásagnartónninn sé nokkuð fjarlægur, hlutlægur næstum því, og það úr munni manneskju sem er að draga allmarga djöfla í lífi sínu, þá einhvern veginn gefur það sannfærandi mynd af fólkinu án allrar skáldrembu. Tónninn minnir jafnvel á sögur eins og Útlendinginn eftir Camus, alvarlegir atburðir og erfiðir fá sinn tíma í hlutlausri frásögn, sem er sérstakt þegar verið er að segja frá í fyrstu persónu.

Ýmis þemu má greina í sögunni, sem eru þó engan veginn predikuð, nema þá í gegnum sögupersónur sem hafa öfgakennd viðhorf eins og Haraldur sem er sjálfmenntaður sérfræðingur í hnattrænni hlýnun, og öfugt við það sem margir karlmenn á hans aldri hugsa, þá er hann sannfærður um hana og vill gera eitthvað í málinu. Kannski svolítil kaldhæðni í því eins og reyndar mörgu öðru í þessari sögu, en taka skal þó fram að kaldhæðnin er langt frá því að vera nöpur eða beisk, miklu fremur góðlátleg.

Sögumaðurinn er að glíma við margvísleg minni háttar vandamál innan fjölskyldunnar, langt í frá ógurleg, en sögumaðurinn þarf að eiga við það að sonurinn er að verða kynþroska og er, eins og margir drengir á þeim aldri, dálítið hamlaður í samskiptum, reyndar ekki ólíkt föðurnum, og sumt sem hann gerir í tengslum við það er einmitt á mörkum þess að vera hrifning og ógnun; reyndar virðist sögumaður leysa nokkuð farsællega úr því, segja má að hann geri sprengjur í undirvitund drengsins óvirkar með þeim sjálfsagða hætti að ræða málin með öllum viðkomandi. Hugsanlega er það forboði einhvers sem sjá má undir lokin, við vitum ekki hvort það sé áreiðanlegt, sögumaðurinn segir allt frá sínum sjónarhóli og hann er ekki alltaf sannsögull, eða að minnsta kosti opinskár við aðra.

En fyrst og fremst er þetta saga um dauðann, dauðaóttann og jafnvel dómsdag á einhverju formi. Sagan í örveröld sögumanns hverfist í raun um dauða foreldranna, einkum föðurins, þess sem hann ræktaði skóginn með, sem nú er hruninn, runninn niður með aurskriðu. Undir honum voru ekki klappir, heldur sprengjur úr síðari heimsstyrjöld sem skildar höfðu verið eftir á víðavangi og jarðvegur hafði safnast yfir. Sprengjur hélt ég að stæðu fyrir einhverja ógn í undirvitund þeirra feðga, að þær táknuðu einhver myrk leyndarmál úr fortíð, sem ég viðurkenni að er nokkuð banalt, enda fór höfundur ekki þá leið, án þess þó að svipta okkur lesendur möguleikanum á þeirri túlkun. En sprengjurnar gegna ekki aðeins ógnandi hlutverki í textanum, þær eru grundvöllur húmors, ef svo má til orða taka í þessu samhengi, vesenið í kringum þær verður grátbroslegt; viðbrögð undirmannaðs lögregluliðs úti á landi eru einhvern veginn sannfærandi, og þegar loksins eitthvað gerist með þessar sprengjur er það á sinn hátt hlálegur harmur, en harmur engur að síður.

Dauði skógar er líka um harm sögumannsins, hann upplifir áfallið af skóginum og fráfalli föður síns nánast samtímis. Söguramminn er fjölskylduferð á Spáni eftir flesta atburði sögunnar, sögumaður lýsir því yfir að hann sé á flótta frá öllu saman, mörgu sem er kannski ágætt og annað eru venjuleg vandamál fjölskyldu, hjóna með tvö börn að stálpast. Konan hans er ágæt, hún krassar kannski dálítið mikið meðan hún talar í símann og á eina trúnaðarvinkonu sem veit kannski aðeins of mikið um allt, en viðbrögð hennar við samskiptahömlum sögumannsins eru að mörgu leyti eðlileg, hann á það til að segja fátt um það sem er að gerast, þó hann langi alveg þess, hefur meira að segja áhyggjur af því, eins og þegar hann dregur að segja henni frá sprengjunum. Ekki skrýtið í ljósi þess að hann fann sprengjurnar á göngu með dóttur sinni; þó hann hafi ekki vitað af þeim fyrir fannst honum ekki endilega rétt að segja frá þeim í því samhengi, eða því samhengi að þær væru rétt fyrir utan garðinn þeirra. Enda verður honum að orði við sjálfan sig við sprengjufundinn með dóttur sinni að „Hildur yrði brjáluð út í mig ef við dræpumst.“  

Þessi annarlegi húmor stingur upp kolli í gegnum söguna og gerir hana áhugaverða, maður í tilvistarkreppu af ýmsum ástæðum segir eitthvað á borð við þetta í fullri alvöru og við brosum. Sagan af Haraldi umhverfisverndarsinna er líka kómísk þótt heimsendaspár hans séu í samræmi við almenna þekkingu, en það er fyndið að heyra þetta úr munni eldri karls sem okkur þætti líklegra að væri þægindamegin í afneituninni. En hann nöldrar ekki bara, hann er með plan, sem er rökrétt en um leið absúrd, hann ætlar að leggja sitt af mörkum til að leysa hungurvandamál heimsins úr skemmu í smábæ úti á landi.

En þrátt fyrir húmorinn og íronískar þversagnirnar er þetta samt saga um sorg og frásögnin sjálf er einhvern veginn eins og úrvinnsla á hinu óumflýjanlega, hún er eins og samningur við hverfulleika lífsins, manns sjálfs, ástvina og meira að segja jarðarinnar. Lokaorðin lýsa þessu vel en þau verða lesendur að ná í sjálfir, sér hugarhægðar. Um sinn að minnsta kosti.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Hún situr í mér og mun gera það áfram“

Bókmenntir

„Svo heyrði ég drunur bergmála yfir mér“

Bókmenntir

Krossfiskar - Jónas Reynir Gunnarsson

Bókmenntir

Íslenskur djammveruleiki í skáldsögu