Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tímarit mátti ekki nýta gögn um gamlan áskrifanda

24.11.2020 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að útgáfufélag tímaritsins Lifandi vísindi hafi brotið persónuverndarlög með því að geyma upplýsingar um gamla áskrifanda mörg ár aftur í tímann og notfæra sér þær síðan í tengslum við markaðsetningu.

Gamall áskrifandi kvartaði til Persónuverndar í september á síðasta ári eftir að honum var boðin kynning og áskrift að Lifandi vísindum.  Hann segist hafa afþakkað pent en þar sem hann var staddur í útlöndum hafi sambandið verið slæmt.

Engu að síður fékk hann tímarit sent heim til sín og kröfu í heimabanka. Hann hafði samband við útgáfufélagið, sagðist ekki hafa áhuga á að borga kröfuna og spurðist fyrir um af hverju hefði verið haft samband við hann. Útgáfufélagið sagðist vera hringja í gamla áskrifendur og bjóða þeim áskrift að nýju. 

Maðurinn taldi að með þessu væri útgáfufélagið að brjóta persónuverndarlög og leitaði því til Persónuverndar. Vildi hann fá úr því skorið hvort útgáfufélaginu væri heimilt að eiga og geyma upplýsingar um áskrifendur, mörg ár aftur í tímann. Sagði hann að nokkur ár væru liðin frá því að hann sagði upp áskrift sinni.

Persónuvernd segir í úrskurði sínum að vissulega geti reynt á einstaka þætti viðskiptasambands eftir að því lýkur.  Og því geti félög þurft að geyma ákveðnar upplýsingar. Sú varðveisla skuli þó ekki vera ótímabundin. Af hálfu útgáfufélagsins hafi ekki komið fram að gerðar hafi verið sérstakar ráðstafanir til að eyða upplýsingum um gamla áskrifendur með reglubundnum hætti.

Telur Persónuvernd því að félagið hafi brotið persónuverndarlög með varðveislu upplýsinganna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV