Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórólfur: „Ákveðið hættutímabil framundan“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Níu greindust með kórónuveiruna í gær og voru fimm þeirra þegar í sóttkví. Nærri helmingi fleiri sýni voru tekin í gær en á sunnudag. Sóttvarnalæknir segir ákveðið hættutímabil fram undan og því ríði á að skimunarfyrirkomulagið á landamærunum standi sig.

Alls er nú 186 í einangrun með virkt smit og 246 í sóttkví. Fjörutíu og þrír liggja inni á spítala, annað hvort með virkt smit eða að jafna sig eftir sýkinguna. Tveir eru á gjörgæslu. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við fréttastofu að það hafi verið alveg viðbúið að tölur um smit myndu sveiflast á milli daga. Tölur dagsins sýni að veiran sé enn úti í samfélaginu og geti skotið upp kollinum á ólíklegustu stöðum.

Ný reglugerð lítur væntanlega dagsins í ljós í næstu viku en núverandi reglugerð gildir til 1. desember. Þórólfur segir enn langt í annan desember þótt hann sé í næstu viku og það sé margt sem geti enn gerst. Hann segir þó að hann ætli að leggja til við ráðherra að næstu tillögur gildi fram yfir jól.

Og það eru einmitt jólin sem margir horfa nú til. Þórólfur segir ákveðið hættutímabil fram undan, ekki bara að menn sleppi fram af sér beislinu innanlands heldur einnig að hingað komi fólk frá útlöndum og Íslendingar fari utan og komi aftur heim.

Nú ríði á að skimunarfyrirkomulagið á landamærunum standi sig. Það haldist í hendur að ef aðgerðirnar innanlands séu of slakar og mörg smit leki í gegn á landamærunum þá aukist líkurnar á því að hér komi upp nýr faraldur innanlands. Auðvitað sé alltaf hætta á því að eitthvað leki í gegn en með skimuninni á landamærunum sé verið að lágmarka þá áhættu.

Fréttir af bóluefni AstraZeneca sem er þróað í samvinnu við Oxford-háskóla voru heldur misvísandi í gær. Fyrstu fréttir bentu til þess að það veitti 60 prósent vörn sem myndi þýða að ef eingöngu yrði notað þetta bóluefni þyrfti öll þjóðin að vera bólusett.  Síðar kom í ljós að bóluefnið veitti allt að 90 prósent vörn ef bóluefnið er gefið með ákveðnum hætti. 

Þórólfur segir þetta mjög áhugavert og von sé á frekari upplýsingum frá fyrirtækinu í hverju þetta liggur. „Nú ef það er þannig að það skilar 90 prósent árangri að gefa hálfan skammt fyrst og svo fullan skammt síðar er það mjög gott og þá notum við bara þá nálgun.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV