Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Telur útgöngubannið kalla á meiri umræðu

Heilbrigðisráðherra fær vald til að setja á tímabundið útgöngubann vegna smithættu, ef nýtt sóttvarnafrumvarp verður að lögum. Ráðherra telur frumvarpið skerpa enn frekar á þeim reglum sem nú þegar eru í gildi. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur útgöngubann kalla á mun meiri umræðu í samfélaginu.

Heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi í gærkvöld frumvarp sitt um sóttvarnalög, það er opinberar sóttvarnaráðstafanir, en Páll Hreinsson hafði unnið álitsgerð fyrir stjórnvöld um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra.  Núgildandi lög eru frá 1997 og þykir endurskoðun löngu tímabær. 

Um heildarlög er að ræða þar sem meðal annars er heimild til að setja á tímabundið útgöngubann sé talin þörf á því vegna smithættu í samfélaginu.

„Ég held að engum hafi dottið í hug þegar lögin voru sett á sínum tíma að við ættum eftir að standa í svona löngum og yfirgripsmiklum faraldri, þannig að það er í raun og veru það sem verið er að gera helst,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hún vonast til að geta mælt fyrir frumvarpinu sem fyrst á Alþingi og telur ekki að verið sé að færa of mikil völd og heimildir til heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis. 

„Við vitum það þegar um er að ræða faraldur, hvort sem hann er af þessari stærðargráðu eða einhverri annarri, að það þarf að grípa mjög oft hratt til ráðstafana. Þannig að það er ekki alltaf þannig að það sé hægt að bíða með ákvarðanir í langan tíma, “ segir Svandís. „Ég tel að þetta sé góður umbúnaður sem við erum að leggja þarna til og er í raun og veru bara þannig að við erum að skerpa enn þá frekar á því sem að nú þegar er við lýði.“ 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins afgreiddi frumvarpið í gær, síðastur stjórnarflokkanna, og gera má ráð fyrir að gerðar verði athugasemdir við það. Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunarnefndar, fagnar að frumvarpið sé fram komið.

„Gott að þetta er komið fram en það þarf að passa að við séum ekki að keyra eitthvað áfram samhliða því sem er nauðsynlegt og tryggir réttindavernd,“ segir Jón Þór.

Hann segir að líklega verði skiptar skoðanir um útgöngubannið. „Þannig að það væri kannski farsælast að slíta þetta í sundur út af því að það er hægt að liggja lengur yfir því, en jafnframt klára það sem er gott að klára strax,“ segir Jón Þór.