Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Taka höndum saman gegn vígamönnum

24.11.2020 - 08:21
epa08560095 Children from the Vicente Tiago family of 30 people who fled the armed attacks in Muidumbe, Cabo Delgado, and took refuge in a small precarious house in Chiuba, Pemba City, Cabo Delgado province, Mozambique, 21 July 2020 (issued 22 July 2020). It is one of thousands of families in need of food aid in the humanitarian crisis affecting the northern province of Mozambique.  EPA-EFE/RICARDO FRANCO
Flóttafólk frá Cabo Delgado. Mynd: EPA-EFE - LUSA
Stjórnir Tansaníu og Mósambík ætla að taka höndum saman í baráttunni gegn vígamönnum sem hafa haft sig mikið frammi í Cabo Delgado í norðurhluta Mósambík undanfarin ár. Skrifað hefur verið undir yfirlýsingu þess efnis.

Í október 2017 réðust sveitir vígamanna á lögreglustöðvar í Cabo Delgado og hafa síðan haft sig mikið í frammi í héraðinu. Þær lýstu síðar yfir hollustu við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Þær hafa aukið umsvif sín á undanförnum mánuðum og eru farnar að gera árásir á þorp og bæi í Tansaníu.

Meira en 2.200 hafa fallið í árásum vígamanna í Cabo Delgado á undanförnum þremur árum og ríflega 350.000 manns hafa hrakist á vergang. Samkvæmt mannréttindasamtökunum Amnesty International þurfa meira en 700.000 manns á brýnni aðstoð að halda vegna átakanna í Cabo Delgado.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV