Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Snjóflóðin í janúar fóru yfir garða á tveimur stöðum

24.11.2020 - 08:03
Mynd: Jóhann Jónsson / RÚV
Tvö snjóflóð féllu á Flateyri í janúar á nánast sama tíma og fóru þau yfir varnargarða fyrir ofan bæinn á tveimur stöðum. Þetta kom fram á íbúafundi á Flateyri þar sem fulltrúar viðbragðsaðila fóru yfir aðgerðir sem gripið var til eftir að snjóflóðin féllu á bæinn 14. janúar og viðbrögð við uppfærðu hættumati og rýmingaráætlun, ef snjóflóð skyldi falla aftur.

Ofanflóðasjóður boðaði einnig til fundar ásamt Veðurstofunni og verkfræðistofunni Verkís, sem hannaði garðana, með íbúum í síðustu viku. Verkís vinnur nú að endurhönnun þeirra. 

„Á öðrum staðnum fór flóðið yfir hús eins og menn muna og ung stúlka grófst undir en bjargaðist sem betur fer,“ sagði Helena Jónsdóttir, verkefnisstjóri á Flateyri, í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Höfnin er með öllu óvarin

„Það kemur líka í ljós að höfnin reyndist ekki varin. Þannig að þeir bátar sem voru í höfninni, allir nema einn, fóru í sjóinn. Þannig að þetta eru garðar sem áttu að verja byggðina, þeir héldu ekki alveg iens og átti að gera og það kemur í ljós að höfnin er með öllu óvarin á staðnum.“

Líklega stærstu flóð sem lent hafa á leiðigörðum í heiminum

„Þetta er stærstu snjóflóðin sem líklega hafa lent á svokölluðum leiðigörðum í heiminum, sagði Helena. „Þetta hefur ekki endilega verið eitthvað sem fólk bjóst við. Fyrir fólk sem hafði búið við það um árabil að telja öryggi sínu borgið, þá er þetta ákveðið öryggisleysi. Þrátt fyrir að það verður að segjast að þessi tvö snjóflóð sem voru með þeim fimm stærstu sem hafa fallið hér voru af þeirri stærðargráðu að maður áttaði sig ekki alveg á hver staðan var gæti verið.“

Kom í ljós síðasta vetur að fjöldi snjóflóða féllu á veginn

Fulltrúar Vegagerðarinnar kynntu vinnu við athuganir á aðgerðum vegna snjóflóðahættu á Flateyrarvegi í gær og fóru yfir möguleika á að laga veginn til Ísafjarðar. Í ljós kom að fjöldi snjóflóða féllu á eða við veginn, einu samgönguæð bæjarbúa, í snjóþyngslunum síðasta vetur.

Þá er búið að færa upp hættumat á Flateyri og uppfæra rýmingaráætlun fyrir bæinn, sem í raun var ekki til staðar áður, og segir Helena íbúana rólegri fyrir veturinn fyrir vikið.