Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skapar mikla hættu fyrir sjómenn

Formaður Sjómannasambands Íslands segir alvarlegt að engin björgunarþyrla verði til taks á fimmtudag og föstudag. Það skapi mikla hættu fyrir sjómenn.

Erfiðlega hefur gengið hjá Landhelgisgæslunni að sinna viðhaldsvinnu á björgunarþyrlum vegna verkfalls flugvirkja. Gæslan hefur undanfarnar vikur náð að halda úti einni þyrlu af þremur en sú þarf að fara í reglubundið viðhald á fimmtudag og föstudag og þá verður engin þyrla tiltæk. 
Uppsöfnuð viðhaldsvinna hefur einnig þau áhrif að einungis verður hægt að halda úti einni björgunarþyrlu fram að jólum.

Landhelgisgæslan segir í skriflegu svari til fréttastofu að mikil hætta sé á að ekki verði hægt að tryggja lágmarks björgunarþjónustu á þessu tímabili.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir þetta skapa mikla hættu fyrir sjómenn.

„Við höfum lengi sagt það og ályktað um þau mál að við viljum hafa hér þrjár þyrlur, allavega alltaf tvær í gangi vegna þess að það sýnir sig á stærð áhafna á stóru skipunum okkar. Þær eru komnar upp í 35 manns og 25 og 26 á minni frystitogurum. Og það þarf tvær þyrlur ef eitthvað alvarlegt kemur upp á. Tala nú ekki um ef það þarf að sækja veika menn út á sjó í vitlausum veðrum. Þegar ekki er hægt að sigla í land út af veðri. Þá er hægt að nota þyrlu,“ segir Valmundur.

Hann segir að tveggja daga stopp sé tveimur dögum of mikið.

„Það má ekki vera einn klukkutími, það er of mikið,“ segir Valmundur.