Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Polar Amaroq við loðnuleit undan Norðurlandi

24.11.2020 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: www.svn.is
Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq er nú við loðnurannsóknir norður af landinu. Íslenskar útgerðir loðnuskipa bera kostnaðinn en leiðangurinn er í samstarfi við Hafrannsóknastofnun.

Undanfarið hafa borist fréttir frá togurum og öðrum veiðiskipum um loðnu á landgrunninu undan Norðurlandi. Geir Zoega, skipstjóri á Polar Amaroq, segir loðnuútgerðina hafa haft við þá samband til að kanna hvort þeir væru tilbúnir í rannsóknaleiðangur.

Búnir að leita frá Vestfjörðum austur undir Grímsey

„Við vorum alveg tilbúnir í þetta. Passar vel við okkar plön,“ segir Geir. Þeir fóru í þennan leiðangur á föstudag og Geir segir þá hafa byrjað norður úr Straumnesi á Vestfjörðum og eru núna norður af Grímsey. „Ætlið við séum ekki búnir að fara einhvernar 800 sjómílur og eigum 200 eftir.

Loðna komin upp á landgrunnið fyrir norðan

„Það er eitthvað af loðnu,“ segir Geir. „Þeir verða að meta það hjá Hafró, þeir fá gögnin þegar við erum búnir.“
„Þannig að þér líst á að það sé gengin loðna svona austarlega?“
„Það er allavega komin einhver loðna upp. Það er spurning hvað er mikið af henni. En það er loðna komin.“

Sigla fyrir fram ákveðna leið

Hann segir það hafa verið ákveðið fyrir fram, í samráði við Hafrannsóknastofnun, hvaða leið þeir færu í þessum túr. „Svo siglum við bara fyrirfram ákveðna leitarleggi og tökum upp og beygjum ekkert út frá þeim. Það eru ákveðin vísindi í þessu.“

Gögnin nýtast til að meta útbreiðslu loðnunnar

Hafrannsóknastofnun fær svo loðnusýni og öll gögn úr leitartækjum skipsins. Birkir Bárðarson fiskifræðingur hjá Hafró segir gögnin nýtast til að meta útbreiðslu loðnunnar á þessu svæði og þessum tíma. Þetta komi svo vonandi að góðum notum við að undirbúa betur rannsóknaleiðangur í janúar.

„Eigum við ekki að vona að það verði loðna?“

En annars er Polar Amaroq loðnuskip og Geir, eins og aðrir loðnuskipstjórar, vonast til að geta veitt loðnu eftir áramót. „Eru menn ekki alltaf bjartsýnir á það, eigum við ekki að vona að það verði loðna? Við förum á loðnu ef það verður loðnuvertíð.“