Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Persónuvernd undirmönnuð og mál hrannast upp

24.11.2020 - 13:23
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Í fyrra voru afgreidd hjá Persónuvernd hátt í þrjú þúsund mál en mörg hundruð mál bíða afgreiðslu.  Rúmlega tvö ár eru síðan ný lög um persónuvernd tóku gildi, þá jókst álag á stofnunina umtalsvert en hefur reyndar farið stöðugt vaxandi um árabil. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir að á tækniöld aukist áskoranir sem varða vinnslu persónuupplýsinga og líka vitund almennings. Málum rigni yfir og þyrfti að fjölga starfsmönnum en miðað við fjárlög verði að fækka á næsta ári.

Í nýrri ársskýrslu kemur fram að 18. árið í röð fjölgar málum á borði stofnunarinnar. Helga segir að þrátt fyrir að vandlega hafi verið farið yfir starfsemina, henni skipt upp í kjarnasvið, verkferlar styttir og léttari málum lokið þá blasi við að það þyrfti ár til að komast í gegnum þau mál sem þegar bíða og á hverjum degi berist ný mál. Stofnunin hafi verið undirmönnuð um árabil. 

COVID tengd mál eru þegar orðin um 180 segir Helga og spanna allt frá persónuvernd og öryggi upplýsinga í tengslum við flóknar vísindarannsóknir yfir í kvartanir um vinnslu persónuupplýsinga í heimsfaraldri. 

 Öll okkar samskipti hafa verið að færast yfir á netið á undanförnum árum og það kristallast í kórónuveirufaraldrinum. Nettengingunni fylgir hætta að brotist sé inn í þær rásir.  Helga nefnir heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Auðvitað sé gott að samskipti við lækna og sérfræðinga til dæmis séu auðvelduð en ef verið sé að nota tæki og  tól sem ekki séu nægilega örugg geti verið hætta á ferðum. Hægt sé að brjótast inn í gangráða, sjúkrahús og orkuveitur. Þarna séu mikilvægustu inniviðir samfélagsins í húfi og mikið undir.

Helga segir að þess séu þegar dæmi að ráðist sé að sjúkrahúsum til þess að halda upplýsingum í gíslingu. Nýlega var ráðist að finnskri sálfræðistofu og skýrslur þeirra sem ekki vildu greiða fyrir birtar á netinu.  Allt eru þetta persónugreinanlegar upplýsingar.

 Þess vegna er vægi persónuverndarlöggjafar svo mikið því þetta er í raun eina verkfærið, haldreipið til þess að tækla málin þegar út af bregður.    

 Helga segir að snertiflöturinn við Póst- og fjarskiptastofnun í netöryggismálum sé stór; víða í Evrópu heyri persónuvernd í fjarskiptum undir persónuverndarstofnanir. 

Persónuvernd hefur lítið bolmagn til að sinna frumkvæðisathugunum og eftirliti en það er þó eitt meginatriði í persónuverndarlögunum sem tóku gildi í hitteðfyrra.  Eins og nú er nær hún ekki að sinna nema broti af því sem henni ber þó að gera. Biðtími eftir úrlausn mála þeirra sem til hennar leita er alltof langur, getur þar skipt árum og það er vond staða. Grundvallarréttindi sem  byggjast á stjórnarskrárákvæðum um friðhelgi einkalífsins séu í húfi segir Helga.