Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Örugglega ein af bestu skáldsögum ársins“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Örugglega ein af bestu skáldsögum ársins“

24.11.2020 - 11:47

Höfundar

Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrýnandi, segir að Snerting, ný skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, sé eitt besta verk hans og vafalaust ein af betri bókum ársins. „Þetta er bók fyrir alla rómantíkera.“

Skáldsagan Snerting gerist í Reykjavík og Tókýó samtímans og London á sjöunda áratugnum. Bókin gerist nærri okkur í tíma og var bókstaflega skrifuð í kófinu svokallaða. Í henni er fjallað um veitingamann í Reykjavík, Kristófer, sem ákveður þegar heimsfaraldurinn skellur á að hætta rekstri veitingastaðar. Við tekur uppgjör í lífi hans og lesendur komast að því hvernig það atvikaðist að hann leiddist út í veitingarekstur í London á hippatímanum.

Sverrir Norland segir að sagan sé afskaplega sterk og hún hafi hreyft djúpt við honum. „Það eru í henni þemu sem Ólafur Jóhann vefur saman sem eru ferðalagið, uppgjör í lífi manns, ást sem hefur lifað lengi og langur aðskilnaður. Þetta eru eiginlega öll sterkustu stefin í sagnagerð, liggur við og einhvern veginn nær hann að láta þetta smella ofboðslega vel í þessari sögu.“

Ólafur Jóhann er sterkastur á svellinu þegar hann fjallar einmitt um manneskjur sem verða að takast á við atburði í fortíð sinni, segir Kolbrún Bergþórsdóttir. „Það er líka mjög gaman, finnst mér, að lesa sögu þar sem það skiptir mann óskaplega miklu máli hvernig sagan endar. Ég var eiginlega þannig að ef þetta fer ekki á vissan hátt þá hendi ég þessari bók.“

Hún segir Snertingu vera heillandi skáldsögu. „Hún er óskaplega fallega skrifuð, stíllinn er svo heillandi ... Höfundurinn leiðir mann í gegnum þetta og maður vill helst ekki hætta að lesa. Og þetta er örugglega ein af bestu bókum Ólafs Jóhanns, ég myndi segja, ásamt Slóð fiðrildanna, Málverkinu og Höll minninganna. Þannig að ég myndi segja að þetta væri ein af fjórum bestu bókum hans og örugglega ein af bestu skáldsögum ársins.“ Hún gleðst mjög yfir því að fá í hendurnar bók um sanna ást. „Þetta er bók fyrir alla rómantíkera.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Það er eins og svart ský hafi farið hjá“

Innlent

Ólafur Jóhann hvetur til samstöðu í baráttu við veiruna

Bókmenntir

„Ólafur Jóhann skrifar aðeins of fallegt tungumál“

Bókmenntir

Tilþrifalítil saga fléttuð upp úr sakamálafréttum