Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óásættanlegt að öryggiskerfið stöðvist vegna verkfalls

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Sú staða sem upp er komin vegna verkfalls flugvirkja Landhelgisgæslunnar er grafalvarleg. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Íslands. Útlit er fyrir að engar þyrlur Gæslunnar verði tiltækar frá og með morgundeginum vegna verkfallsins og Magnús segir óásættanlegt að skipulag sé með þeim hætti að grundvallarþættir í öryggiskerfi landsins geti stöðvast vegna verkfalls.

 

„Ísland er staður þar sem náttúruhamfarir eru mjög tíðar. Við getum bara hugsað um snjóflóðin fyrir vestan og óveðrið um áramótin. Og svo er allskonar náttúruvá, sú sem ég hef mesta reynslu af eru eldgos,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir reynsluna vera að þó oft séu forboðar sem bendi til þess að eitthvað sé að fara að gerast, þá sé atburðarásin hröð þegar til kastanna komi. „Þú veist aldrei hversu stórt eldgosið mun verða eða hvar nákvæmlega er að gjósa. Oft er að gjósa í jöklum og þá er það lykilatriði að það sé hægt að fara sem allra fyrst.“

Magnús Tumi segir að í þessum aðstæðum gegni þyrlur Landhelgisgæslunnar og áhafnir þeirra algeru lykilhlutverki. „Það er einhver brotalöm í því kerfi sem við  búum við að svona mikilvægur þáttur af öryggiskerfinu geti stöðvast vegna verkfalls. Og ég er ekki að taka neina afstöðu í þessu verkfalli og tel að flugvirkjar Gæslunnar eru jafn mikilvægir og allir hinir sem í kerfinu eru. En þeir eiga ekki að vera í þeirri stöðu að fara í verkfall til að hafa sambærileg kjör við aðra,“ segir Magnús Tumi. „Þú tekur ekki reykskynjarann úr sambandi að kvöldi vegna þess að þú hefur enga trú á því að kvikni í í nótt.“