
Norlandair semur um aukið flug til Grænlands
Norlandair hefur í áratugi flogið milli Akureyrar og Grænlands og þjónustað þar íbúa á austurströninni. Þá hefur félagið flogið fyrir alþjóðlegar rannsóknastofnanir og erlend ríki, m.a. danska herinn.
Flogið frá Akureyri og Reykjavík
Norlandair hefur haldið uppi áætlun tvisvar í viku undanfarin ár frá Akureyri. Flug frá Reykjavík bætist nú við, auk þess sem í samningnum er opnað á flug milli staða á Grænlandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Nota þrjár tegundir flugvéla
„Samstarf Norlandair og heimastjórnarinnar á sér djúpar rætur og hefur ávallt verið farsælt,“ segir Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair. „Við munum sinna þessu flugi með DHC-6 Twin Otter og B200 King Air, ásamt DASH-8 flugvél sem til stendur að innleiða. Breidd flugvélaflotans og sérhæfð þjálfun flugmanna gerir okkur kleift að fljúga við mjög krefjandi aðstæður og þjónusta þetta harðbýla svæði á öruggan hátt“.