Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil uppbygging fram undan á Djúpavogi

24.11.2020 - 09:44
Mynd með færslu
Djúpivogur. Mynd úr safni.  Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Norskir eigendur Laxa fiskeldis hafa keypt meirihluta í Fiskeldi Austfjarða og eiga því ráðandi hlut í öllu fiskeldi fyrir austan. Fyrirtækin áforma mikla uppbyggingu á Djúpavogi til að sinna auknu eldi og kallað er eftir því að flugbrautin á Egilsstöðum verði lengd til að hægt verði að fljúga með ferksan lax beint á erlenda markaði.

Starfa saman að laxaslátrun sem stóreykst á næstunni

Laxar og Fiskeldi Austfjarða gætu sameinast eða aukið mjög samvinnu eftir að norska félagið Måsøval keypti 55,6% hluti í Fiskeldi Ausfjarða af öðru norsku félagi. Måsøval á fyrir 58% í Löxum. Talsverð eldisaukning er í pípunum á Austurlandi og hefur áhrif á Djúpavogi þar sem fyrirtækin reka sameiginlega laxaslátrun í Búlandstindi. Þar hefur verið fjárfest fyrir hálfan milljarð í ár í flokkunar- og pökkunarlínu sem afkastar 20 kössum á mínútu. 

„En hins vegar erum við hvergi hættir af því að við viljum mæta aukningunni sem er að koma í eldinu og vera helst á undan henni. Við gerum ráð fyrir að við tökum einhver 12 þúsund tonn á þessu ári og næsta ár erum við að vona að verði einhver 15-16 þúsund sem við náum að fara með í gegnum húsið af laxi,“ segir Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds.

Umbúðaverksmiðja rís á Djúpavogi

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa, segir að hluthafar taki ákvörðun um framhaldið og mögulega sameiningu Laxa og Fiskeldis Austfjarða. Gríðarleg tækifæri séu í frekara samstarfi eins og því sem nú þegar er í Búlandstindi. Þar er frekari uppbygging á dagskrá og til að ekki þurfi að flytja tóma frauðplastkassa frá Hafnarfirði til Djúpavogs verður reist 2600 fermetra umbúðaverksmiðja. 

„Hún mun framleiða frauðkassa undir laxinn og við sjáum fram á þá aukningu sem verður í laxinum að það verður eiginlega ekkert vit í öðru heldur en að framleiða þessa kassa hér á staðnum þar sem er verið að slátra laxinum,“ segir Elís Hlynur.

Verksmiðjan verður í Gleðivík þar sem sveitarfélagið er að skipuleggja stórt athafnasvæði. „Í framhaldi af byggingu kassaverksmiðjunnar þá gerið við ráð fyrir að hér rísi sláturhús sem mun anna slátrun á öllum laxi sem er hér á Austfjörðum. Það verður stór framkvæmd þegar og ef af henni verður. En það er nú allt saman enn þá bara á hönnunarstigi,“ segir Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Vilja fljúga með laxinn frá Egilsstöðum

Nú fara 5-7 gámar fullir af laxi frá Búlandstindi á hverjum vinnsludegi og verða jafnvel 8 gámar á dag næsta haust. Hluti laxins fer með bílum þvert yfir landið í flug frá Keflavík.

„Það er frekar kostnaðarsamt og okkar heitasti draumur er að það væri orðið millilandaflug á Egilsstöðum. Sérstaklega svona lengri leiðir eins og til Ameríku og Asíu. Það vantar aðeins að byggja við flugvöllinn á Egilsstöðum. Fyrst og fremst held ég að brautin þurfi að vera eitthvað örlítið lengri,“ segir Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds. Lengja þyrfti Egilsstaðaflugvöll um 400 og jafnvel 700 metra til að fraktvélar geti flogið með ferskan lax og annan fisk frá vellinum. 

Kallar á fjárfestingu í Egilsstaðaflugvelli

Sjávarúrvegsfyritæki á Austurlandi senda frá sér mikið af ferskum fiski ekki bara Búlandstindur á Djúpavogi heldur líka Síldarvinnslan í Neskaupstað og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði. Austurbrú hefur tekið saman gögn um hvað þurfi til að koma á fraktflugi um Egilsstaðaflugvöll.

Björn Ingi Knútsson, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, segir að byggja þyrfti fraktskemmu með sérhæfðum tækjum til að hlaða fraktinni á svokallaða flugpalla. Þá þurfi að vikta nákvæmlega áður en þeim er stungið inn í fraktvélar með þar til gerðum flugafgreiðslutækjum.

Ef fraktvélar Icelandair Cargo, Boeing 757-200, ættu að geta tekið á loft fulllestaðar og með eldsneyti til langflugs þyrfti að lengja flugbrautina um 400 metra. Þá þyrfti að færa þjóðveginn til suðurs og taka mið af lengri braut þegar ný Lagarfljótsbrú verður byggð. Annað fraktfélag Bluebird Nordic notar minni vélar, Boeing 737 sem þyrftu jafnvel lengri braut. 700 metra lenging ætti að opna völlinn fyrir flestum minni fraktvélum.

Björn Ingi segir enn óljóst hvort hægt yrði að nýta vélarnar til að koma með frakt til landsins. En miðað við framleiðsluaukningu í laxeldi og öðrum sjávarútvegi á Austurlandi sé það ekki spurning hvort heldur hvenær fraktflug hefjist frá Egilsstöðum.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV