Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Með öllu óviðunandi og ógnar íbúum Vestmannaeyja

Lögreglustöðin í Vestmannaeyjum
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Almannavarnanefnd Vestmannaeyja hefur lýst yfir alvarlegum áhyggjum af þeirri stöðu sem uppi er varðandi þyrlur Landhelgisgæslunnar vegna verkfalls flugvirkja. Á morgun verður engin þyrla til taks hjá Gæslunni í að minnsta kosti tvo daga vegna viðhalds.

„Þetta er með öllu óviðunandi og getur ógnað öryggi íbúa í Vestmannaeyjum og sjófarenda ekki síst í því ljósi að veðurspá fyrir næstu daga er slæm og við búið að samgöngur milli lands og Eyja geti raskast verulega af þeim sökum,“sagði Almannavarnanefnd Vestmannaeyja í yfirlýsingu á Facebook síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum í dag.

Nefndin skorar á stjórnvöld að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þyrluþjónusta Landhelgisgæslunnar og neyðarþjónusta á sjó og landi verði með viðunandi hætti.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, fer á fund forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georgs Kr. Lárussonar, í dag þar sem hún metur valkosti Landhelgisgæslunnar og greinir stöðuna betur með forstjóra.

Hún sagði stöðuna hafa verið rædda lengi á ríkiststjórnarfundi í dag og að hún væri litin alvarlegum augum.