Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krabbameinsfélagið greiðir tugmilljónir vegna mistaka

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Krabbameinsfélagið hefur viðurkennt bótaskyldu í máli konu vegna rangrar greiningar í skimun við leghálskrabbameini hjá félaginu. Málum ellefu kvenna sem telja sig hafa fengið ranga greiningu hjá Krabbameinsfélaginu hefur verið vísað til Embættis landlæknis og í málum fjögurra þeirra hefur verið farið fram á skaðabætur.

Konan sem um ræðir fór í skimun við leghálskrabbameini árið 2018. Fyrr í ár veiktist hún alvarlega af krabbameini og þegar sýni hennar var endurskoðað kom í ljós að hún hafði fengið ranga niðurstöðu úr skimuninni.

Í ljós kom að starfsmaður Krabbameinsfélagsins hafði gert mistök við greiningu og í kjölfarið voru sýni sex þúsund kvenna endurskoðuð. Sævar Þór Jónsson, lögmaður kvennanna, segir að  skaðabæturnar sem konan fær greiddar nemi tugum milljóna.

„Tryggingafélag Krabbameinsfélagsins hefur viðurkennt bótaskyldu umbjóðanda míns sem upphaflega byrjaði þetta mál. Þetta þýðir að það er viðurkennt að það hafi átt sér stað brotalöm hjá Krabbameinsfélaginu er varðar málefni umbjóðanda míns. Tryggingafélagið lítur svo á að Krabbameinsfélagið séu skaðabótaskylt vegna þessara mistaka,“ segir Sævar.

Fékk fréttirnar á afmælisdaginn sinn

Hann segir að þetta sé mikill áfangasigur fyrir konuna sem er langt leidd af krabbameini. Það hafi verið léttir fyrir hana að fá þessar fréttir í dag - á afmælisdaginn hennar- og að þurfa ekki að standa í erfiðum málarekstri. Hann segir ekki hægt að segja til um hvaða áhrif þetta hafi á mál annarra kvenna.  „Eflaust gæti gefið að einhverju leyti tilefni til að fleiri mál fengju svipuð málalok, þó ég ætli ekki að fullyrða um það,“ segir Sævar.

Af þeim 11 málum sem vísað hefur verið til landlæknis eru þrjár konur látnar. Sævar segir að í einu þeirra bendi gögn til þess að mistök hafi verið gerð í læknismeðferð við krabbameini.  „Við teljum um mjög alvarlegt tilvik að ræða,“ segir Sævar.