Jónsi, Sváfnir og Pale Moon með spruðlandi nýtt

Mynd: Frosti Jón / Sumarið sem aldrei kom

Jónsi, Sváfnir og Pale Moon með spruðlandi nýtt

24.11.2020 - 17:20

Höfundar

Að venju er fjölbreytnin við völd í útgáfu vikunnar og í boði Undiröldunnar að þessu sinni er nýtt rokk frá rússnesk-íslensku tískudrósunum í Pale Moon, dúett Sváfnis og Hildar Völu, nöturlegt lag og myndband frá Jónsa auk þess sem Úlfur Eldjárn, Kæi Vitta, Stefán Elí og Paunkholm koma við sögu.

Pale Moon – Stranger

Hljómsveitin Pale Moon er farin úr ísköldum tuskubransanum á Laugavegi í heita og raka rokkið í Barcelona. Þessi rússnesk-íslenski paradúett er nefnilega skipaður þeim Nataliu Sushchenko og Árna Guðjónssyni sem ráku tískuverslunina Kvartýru, sem pestin lokaði, og leita þau því nú nýrra ævintýra í Katalóníu.


Sváfnir – Þetta fley er ekki að fara neitt

Sváfnir Sigurðarson gefur bráðlega út sína aðra sólóplötu, Jæja gott fólk. Hún verður aðgengileg á tónlistarveitum 5. desember. Lagið Þetta fley er ekki að fara neitt er að finna á henni og honum til aðstoðar í því eru þau Hildur Vala sem syngur ásamt Sváfni og Matthías Stefánsson á fiðlu.


Jónsi – Sumarið sem aldrei kom

Nú þegar vetur skellur á hér á norðurhveli jarðar gefur Jónsi út nýtt myndband fyrir lagið Sumarið sem aldrei kom, af nýrri plötu sinni Shiver sem kom nýlega út á vegum Krunk útgáfunnar. Frosti Jón Runólfsson leikstýrði myndbandinu og lýsir Jónsi tilurð þess þannig: „Ég bað Frosta vin minn að gera myndband um Ísland en ekki með fallegu náttúrunni og umhverfinu. Meira svona svipmyndir af hversdagsleikanum, ömurlega veðrinu og þunglyndinu.“


Úlfur Eldjárn – Horfin borg

Horfin borg er fyrsta lagið af fyrirhugaðri hljómplötu með tónlist úr verkefninu Reykjavík GPS, sem er gagnvirk tónlistarupplifun fyrir miðbæ Reykjavíkur. Þú notar snjallsíma tengdan við ákveðnar gps-staðsetningar til að hlusta og þegar þú röltir um ákveðið svæði í miðbæ Reykjavíkur heyrirðu tónlistina breytast.


Kæi Vitta – Bílasali

Nafnið Kæi Vitta hringir ekki mörgum bjöllum enda ekki þekktasta nafnið í tónlistarbransanum en þessi ungi Eyjamaður, sem spilar að eigin sögn industrial folk tónlist, hefur sent frá sér lagið Bílasali til að bregða ljósi á örlög sín.


Stefán Elí – Sweet

Akureyrski tónlistarmaðurinn Stefán Elí, sem er líka sumarlistamaður Akureyrar árið 2020, hefur sent frá sér lagið Sweet sem er fjórða lag hans á árinu. Það er tekið af þröngskífunni Dimensions þar sem hann semur lög og texta auk þess að spila á flest hljóðfæri.


Paunkholm – Við fundum stað

Paunkholm hefur sent frá sér annað lagið á árinu. Það heitir Við fundum stað. Sveitin, sem hefur sent frá sér eina breiðskífu og nokkur lög, er sólósveit Franz Gunnarssonar úr Ensími og Dr. Spock.