
Ísland fær Moderna-bóluefnið eftir kaup ESB
Reuters greinir frá þessu á vef sínum.
Von der Leyen sagði í yfirlýsingu að bóluefni væri lífsnauðsynlegt til að binda endi á faraldurinn. Lyfjastofnun Evrópu ætti eftir að gefa grænt ljós og aðeins þau bóluefni sem væri örugg og veittu vörn við COVID-19 yrði dreift. Gagnsæi væri algjört lykilatriði. Hún sagði jafnframt að nú væru margir sem óttuðust að geta ekki hitt ástvini sína um jólin og því væru fréttir dagsins sérstaklega ánægjulegar.
Samkvæmt samkomulagi er Íslandi tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins. Þegar var búið að tryggja aðgengi Íslands að fjórum bóluefnum; Pfizer, Janssen Pharmaceutica, AstraZeneca og Sanofi og GSK.
Ekki er vitað hvenær bóluefni við COVID-19 kemur til landsins né þá hvenær verður hægt að hefja bólusetningar. Undirbúningur er í fullum gangi hjá sóttvarnalækni sem hefur sagt að ef það komi lítið þurfi að forgangsraða en ef það komið mikið verði hægt að bólusetja hratt.
Bæði bóluefni Pfizer og Moderna hafa birt fyrstu niðurstöður úr rannsóknum sínum sem benda til þess að virkni þeirra sé 95 prósent. Virkni bóluefnis AstraZeneca sem er unnið í samstarfi við Oxford-háskóla getur verið 90 prósent ef það er gefið á ákveðin hátt. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í samtali við fréttastofu í dag að beðið væri eftir frekari upplýsingum frá fyrirtækinu.