Sóley Stefánsdóttir er tónlistarkona úr Hafnarfirði. Hún stundaði nám við klassískan píanóleik frá unga aldri og rytmískan píanóleik við Tónlistarskóla FÍH. Árið 2007 hóf hún nám í tónsmíðum/nýmiðlum við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2010.
Árið 2010 kom einnig út fyrsta smáskífa Sóleyjar Theater Island hjá þýska útgáfufyrirtækinu Morr Music og í kjölfarið gaf hún út sína fyrstu breiðskífu We Sink (2011) sem fékk afar góðar viðtökur. Síðan þá hefur hún gefið út tvær breiðskífur Ask the Deep (2015) og Endless Summer (2017) og
að auki hefur hún gefið út fjórar smáskífur með annars Krómantík (2014) - samansafn stuttra og einkennilegra píanóverka og Harmóník (2020) sem inniheldur tilraunakennd og framúrstefnuleg tónverk fyrir harmónikku og rödd. Sóley hefur unnið að tónlist og hljóðmynd fyrir leikhús, nú síðast fyrir teiknimynda-leiksýninguna Tréð (2020) sem hlaut afar góða dóma, og einnig kvikmyndir, dansverk og stuttmyndir. Fjórða breiðskífa Sóleyjar Mother Melancholia mun líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Síðustu tíu ár hefur Sóley ferðast nánast viðstöðulaust um heiminn til að flytja tónlist sína.
Sóley hefur hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin, lagahöfundur ársins og plötu ársins fyrir plötu sína We Sink. Einnig hefur hún verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna og hlaut Kraumsverðlaunin 2012. Hún fékk Grímu tilnefningu fyrir tónlist sína í brúðuleikhúsinu Nýjustu Fréttir og hlotnaðist nýverið sá heiður að fá hvatningarverðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns.
Tónlistarhópurinn ELEKTRA ENSEMBLE er skipaður fimm framúrskarandi tónlistarkonum. Í hópnum eru Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarinettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Hópurinn, sem var stofnaður árið 2008, var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og gekk í kjölfarið til samstarfs við Listasafn Reykjavíkur um tónleikaröð á Kjarvalsstöðum sem stóð frá árinu 2009 til 2015. Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, Óperudögum í Kópavogi, Halland Opera and Vocal Festival í Svíþjóð, í BOZAR-tónleikahöllinni í Brussel og á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum. Frá 2016 til 2019 var hópurinn hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu.
Elektra Ensemble hefur hlotið góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda auk þess sem RÚV hefur margsinnis hljóðritað leik hópsins. Auk þess að flytja helstu perlur tónbókmenntanna leggur hópurinn mikla rækt við frumflutning nýrra verka. Hópurinn hefur frumflutt verk eftir m.a. Helga Rafn Ingvarsson, Huga Guðmundsson, Kolbein Bjarnason, Þuríði Jónsdóttur, Þórð Magnússon, félaga í tónskáldahópnum Errata Collective og mörg önnur tónskáld. Í tilefni af 10 ára starfsafmæli Elektra Ensemble gaf hópurinn út hljómplötu með verkum sem samin hafa verið fyrir hópinn. Elektra Ensemble hefur notið styrkja frá Tónlistarsjóði og Reykjavíkurborg um árabil en einnig hlutu tónlistarkonurnar starfslaun listamanna árið 2016 fyrir starf sitt með hópnum. Hópurinn var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019.