Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hvetur til varúðar á tilboðsdögum

24.11.2020 - 20:13
Tilboð í tengslum við verslunardaga á borð við svartan föstudag reynast ekki alltaf eins hagstæð og gera má ráð fyrir, segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. Hann segir að slíkir tilboðsdagar í aðdraganda jóla séu trommaðir upp til að auka verslun.

Breki segir að neytendur þurfi að taka umhverfið með í reikninginn þegar verslað er fyrir jólin og kaupa ekki óþarfa, einkum þegar innkaupin eru gerð á netinu.

„Það er ekkert sorglegra en að fá einhvern hlut sem sendur er yfir hálfan hnöttinn til að enda við hliðina á fótanuddtækinu, eða litla ljósálfinum ef einhver man eftir honum,“ segir Breki. Hann segir að Neytendasamtökunum berist reglulega ábendingar í kringum tilboðsdaga um að tilboðin séu ekki alltaf jafn góð og þau virðist vera. Dæmi séu um að verslanir hækki verð einungis til að lækka það á tilboðsdögum. „Það er ekki heimilt.“

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV