Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hjörleifshöfði of dýr og ekki í forgangi

24.11.2020 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Jörðin Hjörleifshöfði var ekki í efsta forgangi yfir jarðir sem ríkið vildi kaupa, en seljandi jarðarinnar vildi fá meira fyrir hana en ríkið var tilbúið að greiða. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Jörðin Hjörleifshöfði, 11.500 hektarar að stærð, var á dögunum seld þýsku fyrirtæki í samstarfi við Íslendinga fyrir mörg hundruð milljónir. Þar á að nýta vikur úr Kötlu sem íblöndun í sement en einnig byggja upp ferðaþjónustu. 

Nýsamþykkt frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra miðar að því að tryggja að of stór hluti lands safnist ekki á fárra hendur. Katrín segir að Hjörleifshöfði hafi verið í hópi margra jarða sem ríkinu hafi staðið til boða að kaupa.

„Þar höfum við það ferli að það er ákveðinn samráðshópur sem metur í raun og veru slíkar jarðir meðal annars út frá náttúruverndargildi, mögulegum menningarminjum sem getur haft gildi fyrir ríkið að eiga. Í þessu tilfelli var þessi jörð ekki metin í efsta forgangi. Það voru aðrar jarðir taldar mikilvægar fyrir ríkið að eignast," segir Katrín.

Katrín segir að þrátt fyrir það hafi lögfræðingur forsætisráðuneytisins verið í samskiptum við lögmann seljanda til að ræða kaupverð.

„Ég ætla ekkert inn í nákvæmar verðhugmyndir enda eru þær ekki ræddar á minni skrifstofu. Þetta fer allt í gegnum lögfræðinga en það var bara of ljóst að það bar of mikið milli þess sem ríkið var tilbúið að greiða og eigandinn vildi fá."