Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fylgjast grannt með hugsanlegum aukaverkunum

24.11.2020 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Magnús Gottfreðsson yfirlæknir og prófessor í smitsjúkdómum segir að fylgst verði grannt með aukaverkunum bóluefna við COVID-19. Hann segir ekkert benda til þess að sérstök áhætta sé fólgin í bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla við COVID-19.

 

Von er á þremur bóluefnum við COVID-19 á næstu vikum og er áætlað að bólusetningar hefjist í Bandaríkjunum og í Evrópu í næsta mánuði eða fljótlega eftir áramót.

Í sænskri könnun sem birt var í gær kemur fram að fjórði hver Svíi ætlar ekki að láta bólusetja sig af ótta við aukaverkanir. Óttann má meðal annars rekja til þeirra aukaverkana sem fylgdu bóluefninu við svínaflensunni árið 2009.

Þróun bóluefna við COVID-19 hefur tekið afar stuttan tíma og það hefur einnig aukið ótta fólks. Fram kemur á vef Landlæknis að flestar bólusetningar geti valdið einhverjum aukaverkunum en þær séu mjög sjaldan alvarlegar. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir.

Magnús segir að við þróun bóluefna séu ávallt gerðar víðtækar prófanir til að leggja mat á öryggi og hugsanlegar aukaverkanir.

„Það er nú þannig að þegar við erum að prófa ný lyf og ný bóluefni þá eru gerðar víðtækar prófanir til þess að leggja mat á öryggi og aukaverkanir. Þær niðurstöður sem hafa verið gefnar út um þetta tiltekna bóluefni [bóluefni Astra Zeneca] benda ekki til þess að það sé sérstök áhætta fólgin í gjöf þess. Hins vegar er það þannig að þegar við förum að bólusetja gríðarlegan fjölda einstaklinga þá er mögulegt, bæði í tilviki nýrra lyfja og nýrra bóluefna að einhverjar aukaverkanir komi fram síðar. Um það er ógjörningur að spá og raunverulega náum við ekki þeirri þekkingu nema með því að taka þetta skref og fylgjast svo grannt með öllum þátttakendum og það er það sem stendur til að gera,“ segir Magnús. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV