Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Fullt af úrgangi sem við sjáum aldrei“

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Svokölluð nýtnivika stendur nú yfir hjá Akureyrarbæ og fjöldi rafrænna viðburða framundan hjá bænum. Verkefnið er samevrópskt átak sem er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr úrgangi og sóun, endurvinna og nýta betur, eins og fram kemur á vefsíðu Akureyrarbæjar.

Í nýtniviku eru alltaf mismunandi þemu á hverju ári og þetta árið er þemað ósýnilegur úrgangur. Síðdegisútvarpið á Rás 2 hitti Guðmund Hauk Sigurðarson framkvæmdastjóra Vistorku á Akureyri, sem er einn þeirra sem taka þátt í dagskrá nýtnivikunnar, og forvitnaðist um hvað einkennir ósýnilegan úrgang. 

Úrgangurinn sem varð til í framleiðsluferlinu

Ósýnilegur úrgangur segir Guðmundur að sé úrgangur sem við sjáum ekki sem endanlegir notendur vörunnar en verður til í framleiðsluferlinu. „Við getum ímyndað okkur að framleiða bíl eða framleiða hús. Þar er fullt af úrgangi sem sjáum aldrei sem kaupum vöruna, sem hefur orðið til í ferlinu. Og það er talað um að þetta séu margföldunartölur, miðað við þann úrgang sem við svo losum okkur við,“ segir hann. 

Guðmundur segir að það sé mikilvægt að auka meðvitund, gera meiri kröfur til framleiðenda, t.d. með því að vilja umhverfisvænna og minna af umbúðum, auk þess að gera kröfur um að vörurnar endist sem lengst. Hann segir að þetta sé dýrt fyrir samfélagið. „Þetta kostar auðlindir og þetta eru mjög dýr og erfið ferli oft, þessi úrgangsferli og meðhöndlunarferli og endurvinnsluferli og annað.“

Allar vikur eru nýtnivikur

Í nýtnivikunni stýrir Guðmundur rafrænum umræðum um úrgangsmál, þar sem sérfræðingar í málaflokknum sitja fyrir svörum. Þar gefst áhorfendum kostur á að spyrja jafnóðum. Guðmundur segir að auðvitað séu allar vikur nýtnivikur en með því að leggja sérstaka áherslu á málaflokkinn í ákveðinn tíma sé verið að vekja athygli á þessum málum.

„Við erum að setja upp fróðleik á vefsíðuna okkar og við erum að reyna að miðla í gegnum viðburði á samfélagsmiðlum og annað. Þannig að það þarf þessa áminningu stanslaust og þetta samtal,“ segir Guðmundur. Hann hvetur fólk til að forðast skyndiákvarðanir í innkaupum og til að nýta hluti lengur, láta þá ganga áfram. 

Umhverfismálin oft mikill frumskógur  

Guðmundur viðurkennir að jafnvel fyrir sérfræðing eins og hann geti úrgangs- og umhverfismál oft verið mjög flókin. „Ég ætla ekki að segja að maður sé að bugast. En þetta er verkefni og ef við nennum þessu ekki þá nennum við eiginlega engu öðru,“ segir hann.

Nauðsynlegt sé bara að byrja og hægt er að finna mikinn fróðleik á netinu, til dæmis á vefsíðum bæjarfélaga og stofnana. „Þetta er bara það sem við öll glímum við og við verðum bara að ná okkur í þessar upplýsingar,“ segir Guðmundur.  

Áhugasamir get séð hér hvaða viðburðir  verða í boði í Nýtniviku Akureyrarbæjar. 

Rætt var við Guðmund Hauk Sigurðarson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.