Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fékk Óskarinn tvítug og býr nú á Íslandi

Mynd: - / RÚV

Fékk Óskarinn tvítug og býr nú á Íslandi

24.11.2020 - 09:11

Höfundar

Óskarsverðlaunahafinn Markéta Irglová hefur verið búsett hér á landi um árabil. Hún semur tónlist, syngur og setti á laggirnar upptökustúdíó.

Marketa er fædd og uppalin í bænum Valmez í Tékklandi. „Ég byrjaði að læra á píanó þegar ég var 7 ára svo aðeins seinna á gítar. Þegar mamma og pabbi voru krakkar  langaði þau að læra á hljóðfæri en fengu ekki tækifæri, þannig að þau reyndu að gefa okkur öllum tækifærin sem þau fengu ekki,“ segir hún. Ekki óraði Marketu fyrir að tónlistin yrði að atvinnu. „Ég gerði mér aldrei grein fyrir því að ég gæti unnið við það seinna. Ég hef séð að mamma og pabbi hafa haft rosalega gaman af því hvernig það þróaðist og það er eiginlega þeim að þakka að ég er að lifa lífinu sem ég er að lifa.“

„Af hverju ertu ekki að semja?“

Marketa kynntist tónlistarmanninum Glen Hansard þegar hann spilaði á tónlistarhátíð í Tékklandi og þau stofnuðu hljómsveitina The Swell Season. Undir þeim formerkjum ferðuðust þau víða um heim og spiluðu á tónleikum. „Það var eiginlega byrjunin á einhverju, það var ekki séns að ég gæti einu sinni ímyndað mér hvernig þetta myndi fara. Ég lærði af Glen hvernig maður semur texta og hann var rosa mikið: „bíddu þú ert með píanó, þú syngur, af hverju ertu ekki að semja?“, þannig að hann hvatti mig til að byrja að semja,“ segir Marketa. Í framhaldinu byrjaði hún að semja tónlist og náði fljótt mögnuðum árangri þegar hún samdi tónlist fyrir kvikmyndina Once ásamt Hansard auk þess sem hún fór með annað aðalhlutverkanna. Lag þeirra, Falling slowly, hlaut Óskarsverðlaun árið 2008, þegar Marketa var aðeins tvítug. „Það var súper 'low-budget movie'. Það átti enginn von á að það yrði eitthvað meira úr því en svo fór myndin á Sundance festival og þá byrjuðu rosalega miklar auglýsingar í Bandaríkjunum. Eftir það blés þetta alveg út, það var magnað að fylgjast með þessu. Svo fengum við Óskarinn sem var líka bara fáránlega skrýtið en gerðist samt. Ég held að það hafi verið 'meant to be'. Allt sem gerðist, það var eins og einhver hefði planað það allt saman.“

„Heppnasti maður í heimi“

Eftir Óskarsævintýrið stóð Marketa á krossgötum. „Þá var ákvörðun fyrir mig hvort ég héldi áfram í tónlistinni eða færi að gera eitthvað annað. Þá flutti ég til New York og bjó til sólóplötu og svo kom ég hingað til Íslands til að búa til aðra sólóplötuna mína. Þá kynntist ég Míó, manninum mínum og þá var ég bara hér, í 8 ár,“ segir Marketa en eiginmaður hennar er Sturla Míó Þórisson tónlistarmaður og upptökustjóri.

Hann lýsir kynnum þeirra þannig: „Við kynntumst í stúdíóinu. Ég var að vinna hjá snillingnum honum bróður mínum, Valgeiri Siguðrssyni, uppi í gróðurhúsinu hans og Marketa kom þangað til þess að taka upp plötu sem heitir Muna. Þannig að næsta árið vorum við voða mikið að dunda okkur í plötunni hennar. Hún ætlaði bara að vera hérna í tvær vikur svo bara fór hún ekkert aftur. Ég held að ég sé heppnasti maður í heiminum, af því að ég fæ að gera það sem ég elska með konunni sem ég elska.“

Má gera hvað sem er

Á Live from Reykjavík hátíð Iceland Airwaves spilaði Marketa og söng með Emilíönu Torrini og vinum. Marketa hafði fyrst kynni af tónlist Emilíönu fyrir mörgum árum. „Ég hafði þekkt tónlistina hennar, systir mín gaf mér plötuna hennar í jólagjöf fyrir kannski 10 árum síðan. Það er á síðustu tveimur árum sem við erum búnar að hittast mikið með börnin okkar. Emilíana er svo skemmtilegur karakter og rosalega hæfileikarík tónlistarkona, það er alltaf heiður að fá að gera eitthvað með henni.“

Aðspurð segir Marketa næstu verkefni meðal annars að semja söngleik og klára síðustu plötuna í þríleik. Það er því í nógu að snúast þrátt fyrir að tónleikahald og viðburðir liggi niðri. „Jafnvel þótt það sé voða lítið að gera þá er þetta eins og 'systems are down' eða eitthvað, allar reglurnar sem hafa verið í tónlistarbransanum það er eins og þær gildi ekki lengur þannig að það má gera hvað sem er, sem er rosa skemmtilegt.“

Vefsíðu Markétu má finna hér. 

 

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Tónlist

Iceland Airwaves tónleikar 2020