Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Færri velja nagladekk

24.11.2020 - 17:01
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ökumönnum sem kjósa að aka á negldum dekkjum hefur fækkað um tæp átta prósent á tveimur árum samkvæmt FÍB, Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Hlutfall ónegldra og negldra dekkja á höfuðborgarsvæðinu er kannað mánaðarlega af verkfræðistofunni Eflu og fór fyrsta athugunin fram 11. nóvember. Samkvæmt henni voru 29,5% ökumanna á nagladekkjum og 70,5% á dekkjum án nagla. Þetta er nokkur fækkun frá því í fyrra þegar 34,9% ökumanna á sama tíma ók á nagladekkjum. Fyrir tveimur árum var hlutfall þeirra 37,2% og þeim því fækkað sem velja negld dekk um 7,7 prósent.

Mynd með færslu
 Mynd: FÍB - Efla

Veturinn hefur verið fremur mildur hingað til og hugsanlega einhverjir ökumenn beðið með að skipta yfir á nagladekk af þessum sökum en notkun þeirra er leyfð frá 1. nóvember til 14. apríl hvert ár. Samkvæmt lögum eiga þeir ökumenn sem nota nagladekk eftir 15. apríl að greiða 80 þúsund krónur í sekt ef allir fjórir hjólbarðar eru negldir.

Á Akureyri hafa bæjaryfirvöld hvatt bifreiðareigendur til að nota aðrar gerðir dekkja en undanfarin ár hafa um 75% ökumanna kosið að setja negld dekk undir bíla sína yfir vetrartímann. Reykjavíkurborg hefur sömuleiðis biðlað til ökumanna að sleppa nagladekkjunum og segir notkun þeirra innan borgarmarka óþörf.