Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekki ábyrgð læknis að tryggja að farið sé til sýnatöku

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum kvað skýrt á um það í sjóprófi í gær að það væri ekki í sínum verkahring að sjá til þess að fólk fari í sýnatöku. Hann vissi ekki betur en að Júlíus Geirmundsson hefði siglt til lands eftir að hann talaði fyrst við skipstjórann.

Skipstjórinn hringdi fyrst í lækninn 28. september, þegar einungis nokkrir dagar voru liðnir af veiðiferðinni. Skipstjóri lýsti því þá að einn skipverja væri lasinn með kveflík einkenni. Læknirinn sagðist hafa svarað því til að ekki væri hægt að meta í gegnum síma hvort það væri COVID eða ekki og mæltist til þess að haldið skyldi í land til sýnatöku. 

Sóttvarnalæknir fylgdi þessu ekki eftir og sagði í sjóprófinu í gær hafa treyst því að siglt hefði verið í land að símtalinu loknu - allt þar til skipstjóri hringdi að nýju tæpum þremur vikum síðar. Þá höfðu tuttugu skipverjar sýnt einkenni, flestir á fyrstu viku túrsins. 

Ekki í verkahring læknis að sjá til þess að tilmælum sé fylgt

Læknirinn sagði, í sjóprófinu, það ekki í sínum verkahring að fylgja því eftir að farið sé í sýnatöku. Tugir símtala berist á dag þar sem hann segir fólki að fara í sýnatöku. Ekki sé mögulegt að fylgja þeim öllum eftir. 

Embætti Landlæknis staðfestir að læknirinn hefði ekki borið ábyrgð á að skipstjórinn hlýddi. Önnur staða hefði hins vegar verið uppi ef sjúklingur hefði verið greindur með COVID og ekki farið eftir tilmælum. 

Gæslunni ekki gert viðvart

Samkvæmt leiðbeiningum fyrir hafnir og skip vegna COVID-19 ber skipstjóra að tilkynna grun um sýkingu til Landhelgisgæslunnar sem hefur þá milli göngu um samskipti skips og sóttvarnayfirvalda. Svo fór ekki í máli Júlíusar Geirmundssonar heldur hafði skipstjóri beint samband við lækni.

Gæslan vissi því ekki af gruni um smit um borð fyrr en eftir sýnatöku 19. október, þegar 19 skipverjar greindust með veiruna. Það var þremur vikum eftir að skipstjóri talaði við lækni. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar sagði í viðtali við RÚV að það hefðu verið reginmistök. 

Rannsókn málsins hjá Lögreglunni á Vestfjörðum er á lokastigum. Skýrsla var tekin af skipstjóra togarans á sunnudag, áður en sjópróf var haldið.