Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Eigendur Hjörleifshöfða nýta vikur í sementsframleiðslu

24.11.2020 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Nýir eigendur jarðarinnar Hjörleifshöfða í Mýrdal áforma vikurnám á Mýrdalssandi jörðinni til að nýta sem íblöndunarefni í sement. Talsmaður eigenda segir að samkvæmt umhverfismati sé heimilt að vinna um 200 þúsund rúmmetra á ári.

Tilkynnt var í gær um sölu á Hjörleifshöfða, en kaupverðið nemur mörg hundruð milljónum króna. Jörðin er mjög landmikil, um 11.500 hektarar og hafði verið á sölu í nokkur ár. Nýir eigendur eru þýskt fyrirtæki sem fjármagnaði kaupin og á meirihluta jarðarinnar í samstarfi við Íslendinga.

Jóhann Vignir Hróbjartsson sem fer fyrir hópnum segir að annars vegar eigi að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu og hins vegar að nýta stórar vikurnámur á jörðinni. 

„Það er fyrst og fremst að við ætlum að fara í vikurnám. Jörðin er með gríðarlega mikið af hreinum og góðum vikri til vinnslu, vikur sem verður notaður í sementsiðnaðinum og okkar félagar sem eru að kaupa með okkur jörðina eru með gríðarmikinn markað í Evrópu að selja flugösku frá kolaorkuverum eins og fólk veit. ekki bara í evrópu heldur víða um heim og þá verður skortur á flugösku til íblöndunar í sement og á kemur vikurinn frá Kötlu til góða."

Jóhann segir að samkvæmt umhverfismati megi vinna 200 þúsund rúmmetra á ári af vikri úr skilgreindri námu á jörðinni, austur af Hafursey. Þarna sé gríðarmikið af vikri, 160 milljón rúmmetrar í 10-15 metra þykku lagi. Hann segir engin tímasett áform um hvenær vikurnám hefst, það ráðist meðal annars af því hvenær kolaverum verður lokað. Þegar framboðið af kolaöskunni minnkar áformar þýska fyrirtækið að blanda 20-30 prósentum af vikri í framleiðsluna. Sú aðferð við sementsframleiðslu feli í sér miklu minni losun kolefnis.  

„Ég reikna ekki með að það verði fyrr en eftir 2-5 ár sem vikurnámið hefst af einhverri alvöru, en það er bara langt skipulagsferli og rannsóknarferli og allt það. Þetta tekur allt tíma."

Jóhann rekur sjálfur ferðaþjónustu á svæðinu og segir að nýir eigendur ætli að sporna við utanvegaakstri á sandinum með því að byggja upp vegi og setja upp skilti. 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV