AGON eftir Högna Egilsson

Mynd: - / RÚV

AGON eftir Högna Egilsson

24.11.2020 - 08:17

Höfundar

„AGON er fantasía í 6 köflum. Hver kafli er hugleiðing um átök, togstreitu og allt það stríð sem við skynjum í leit okkar að hinu stórbrotna. Frásögn er mér ofarlega í huga í minni tónlist. Sama hversu tyrfin eða flókin tónlistin verður í hljómefni eða hvers konar áferð þá er samt sem áður, í víðáttu hljóðsins, ríkjandi lag og söngur.“ Högni Egilsson um verkið AGON.

Þema tónlistarhátíðar Rásar 1 árið 2020 er þræðir og hverfist hún um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Pöntuð voru fjögur ný tónverk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur á tónleikum.

Mynd: - / RÚV

Högni Egilsson hóf nám í fiðluleik hjá Lilju Hjaltadóttur aðeins fimm ára og stundaði það fram að unglingsárum. Þá nam hann tónlist hjá Þorgerði Ingólfsdóttur og söng með Hamrahlíðarkórnum undir hennar stjórn. Samhliða þessu og íslenskunámi hjá Steingrími Þórðarsyni í Menntaskólanum við Hamrahlíð spilaði Högni körfubolta með Val undir handleiðslu Ágústs Björgvinssonar. Að loknu stúdentsprófi gekk Högni í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Árin 2006 til 2008 lagði hann stund á tónsmíðar við í Listaháskóla Íslands, m.a. hjá Atla Ingólfssyni, Kjartani Ólafssyni og Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni.

Á seinni árum hefur Högni komið víða við. Hann er aðallagahöfundur og söngvari hljómsveitarinnar Hjaltalín og hefur komið fram með henni á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu sem og hér heima, m.a. á rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, hér á Ísafirði.

Högni Egilsson var eitt þriggja nýrra tónskálda sem hlutskörpust urðu í samkeppni tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið, Ísafoldar kammersveitar og Rásar 1.


 

Tónlistarhópurinn ELEKTRA ENSEMBLE er skipaður fimm framúrskarandi tónlistarkonum. Í hópnum eru Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarinettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Hópurinn, sem var stofnaður árið 2008, var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og gekk í kjölfarið til samstarfs við Listasafn Reykjavíkur um tónleikaröð á Kjarvalsstöðum sem stóð frá árinu 2009 til 2015. Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, Óperudögum í Kópavogi, Halland Opera and Vocal Festival í Svíþjóð, í BOZAR-tónleikahöllinni í Brussel og á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum. Frá 2016 til 2019 var hópurinn hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu.

Elektra Ensemble hefur hlotið góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda auk þess sem RÚV hefur margsinnis hljóðritað leik hópsins. Auk þess að flytja helstu perlur tónbókmenntanna leggur hópurinn mikla rækt við frumflutning nýrra verka. Hópurinn hefur frumflutt verk eftir m.a. Helga Rafn Ingvarsson, Huga Guðmundsson, Kolbein Bjarnason, Þuríði Jónsdóttur, Þórð Magnússon, félaga í tónskáldahópnum Errata Collective og mörg önnur tónskáld. Í tilefni af 10 ára starfsafmæli Elektra Ensemble gaf hópurinn út hljómplötu með verkum sem samin hafa verið fyrir hópinn. Elektra Ensemble hefur notið styrkja frá Tónlistarsjóði og Reykjavíkurborg um árabil en einnig hlutu tónlistarkonurnar starfslaun listamanna árið 2016 fyrir starf sitt með hópnum. Hópurinn var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019.