Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vísbendingar um að virkni bóluefnisins sé 90%

Mynd: EPA-EFE / DPA POOL
Margt bendir til þess að virkni bóluefnis,  sem vísindamenn við Oxfordháskóla hafa unnið að í samvinnu við bresk-sænska lyfjafyrirtækið Astra Zeneca, sé meiri en sú 70% vörn sem greint hefur verið frá í fréttum. Frekari prófanir munu leiða það í ljós. Þetta segir Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Þetta er eitt þeirra bóluefna sem Ísland fær sent og greint hefur verið frá því að virkni þess sé að meðaltali 70%. Ingileif var gestur Síðdegisútvarpsins í dag og sagði þar að þetta sé góð virkni fyrir bóluefni sem þetta. „En auðvitað er 90% betra. Eða 95%,“ sagði Ingileif.

Ingileif segir sterkar vísbendingar um að bóluefnið gæti veitt talsvert meiri vernd, eða allt að 90%, þegar gefinn sé minni skammtur í fyrstu bólusetningu og stærri í þeirri síðari. Hún segir að á næstunni fari af stað rannsóknir víða um heim.

„Þar á að prófa allt að 60.000 manns og ef þetta reynist rétt getum við búist við að verndin sé meiri en 70%, kannski allt að 90%. Þeim mun fleiri sem eru á bak við niðurstöðurnar, þeim mun öruggari eru tölurnar,“ sagði Ingileif í Síðdegisútvarpi Rásar tvö.