Þetta er eitt þeirra bóluefna sem Ísland fær sent og greint hefur verið frá því að virkni þess sé að meðaltali 70%. Ingileif var gestur Síðdegisútvarpsins í dag og sagði þar að þetta sé góð virkni fyrir bóluefni sem þetta. „En auðvitað er 90% betra. Eða 95%,“ sagði Ingileif.
Ingileif segir sterkar vísbendingar um að bóluefnið gæti veitt talsvert meiri vernd, eða allt að 90%, þegar gefinn sé minni skammtur í fyrstu bólusetningu og stærri í þeirri síðari. Hún segir að á næstunni fari af stað rannsóknir víða um heim.
„Þar á að prófa allt að 60.000 manns og ef þetta reynist rétt getum við búist við að verndin sé meiri en 70%, kannski allt að 90%. Þeim mun fleiri sem eru á bak við niðurstöðurnar, þeim mun öruggari eru tölurnar,“ sagði Ingileif í Síðdegisútvarpi Rásar tvö.