
Vinna allan sólarhringinn við að afgreiða pantanir
Gestur Hjaltason framkvæmdastjóri Elko segir þetta töluvert úrlausnarefni.
„Við keyrum þetta á netinu og búumst við að helmingur allra viðskipta okkar eða meira verði í vefversluninni þessa vikuna og það þýðir að það eru fleiri þúsund pakkar á dag. Við erum búin að setja upp vaktafyrirkomulag í afgreiðslu hjá okkur í vefverslun til að koma pökkunum út vegna þess að ef fram heldur sem horfir þá verðum við að afgreiða síðustu pakkana rétt fyrir jól ef við bregðumst ekki harkalega við og við erum aldeilis búin að gera það, " segir Gestur.
Hann segir að staðan verði erfið ef stífar samkomutakmarkanir dragast fram í desember.
„Það er bara að leysa þetta og vonandi verða einhverjar tilslakanir hérna eftir viku því ég veit ekki hvernig þetta verður með jólavertíðina, það þarf bara að fresta jólunum."
Andrés Magnússon formaður Samtaka verslunar og þjónustu segir stefna í óefni í jólaverslun með 10 manna samkomutakmörkunum.
„Menn sjá það bara fyrir sér að næsta helgi sem er og verður gífurlega stór verslunarhelgi að þá verða hérna biðraðir út um allar trissur. Það er alveg hreinar línur. Það er þess vegna sem það er svo gífurlega mikilvægt að það verði slakað á þessu sem allra fyrst. "