Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Útgöngubann verði hluti af sóttvörnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra fær heimild til að setja á útgöngubann sé talin þörf á því vegna smithættu í samfélaginu verði frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum samþykkt á Alþingi. Þar er einnig málsmeðferð við ákvarðanir um að setja fólk í einangrun eða sóttkví skýrð frekar.

Markmið  frumvarps er m.a. að skýra betur þau ákvæði sem fjalla um einangrun og sóttkví í gildandi lögum. Þetta er lagt til í því augnamiði að ákvæði laganna verði skýrari um þær heimildir sem stjórnvöld hafa til að bregðast við útbreiðslu farsóttar. Mælt er með því í frumvarpinu að ekki verði gripið til útgöngubanns nema í algerum neyðartilvikum. 

„Sú heimild að ráðherra geti kveðið á um útgöngubann sem hluta af opinberum sóttvarnaráðstöfunum snýr að banni við að vera á ferð utan dyra og/eða þeirri skyldu að vera innan dyra á heimili, svo sem á tilteknum tíma sólarhrings, vegna smithættu í samfélaginu eða annarrar hættu sem fellur undir lögin, t.d. geislavirkni. Til þessa úrræðis hefur ekki verið gripið hér á landi vegna COVID-19-faraldursins, og ekki þótt tilefni til, en því hefur verið beitt víða erlendis, til að mynda í flestum ríkjum Vestur-Evrópu, utan Norðurlandanna. Útgöngubann getur verið mismikið að umfangi allt frá því að ekki sé heimilt að vera á ferli á nóttunni að óþörfu yfir í að vera fyrirskipun um sóttkví allra þeirra sem falla undir útgöngubannið. Almennt má ætla að slík ráðstöfunum falli ekki undir gildandi heimildir ráðherra að setja á samkomubann. Vegna þess hve íþyngjandi slík ráðstöfun getur verið þarf að gjalda varhuga við beitingu þess og ekki grípa til úrræðisins nema í algerum neyðartilvikum,“ segir í frumvarpinu.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag. Það er afrakstur vinnu starfshóps sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði í haust í þeim tilgangi að skýra ákvæði laga um opinberrar sóttvarnir.  Álitsgerð Dr. Páls Hreinssonar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarna samkvæmt sóttvarnalögum var lögð til grundvallar við vinnu hópsins. 

Í frumvarpinu er lagt til að útgöngubann verði hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum og þá eru þar lagðar til breytingar í þeim tilgangi að tryggja betur að framkvæmd sóttvarna sé í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Einnig er lagt til að tiltekin ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar, sem fjalla um ráðstafanir við komu og brottför milli landa, verði innleidd í íslenskan rétt. Almennt verði ekki tekið gjald fyrir ráðstafanir gagnvart ferðamönnum sem koma til landsins, nema það sé þeim til hagsbóta.

Í frumvarpinu er einnig  hlutverk sóttvarnalæknis skýrt frekar en nú er og það sama gildir um hlutverk sóttvarnaráðs. Þá er þar kveðið á um að fólki, sem smitast af smitsjúkdómi, er skylt að fara eftir fyrirmælum læknis um meðferð og ráðstafanir til að fyrirbyggja smit.