Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfa að ákveða fjölda heimila og fjölda ára í rannsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ákveða þarf hversu mörg vistheimili á að skoða og yfir hversu langan tíma slík rannsókn myndi ná, segir formaður velferðarnefndar Alþingis. Nefndin ætlar að kalla eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu áður en ákvörðun verður tekin.

Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp hafa farið formlega fram á að Alþingi láti gera óháða rannsókn á aðbúnaði fatlaðs fólks og fólks með geðrænan vanda síðastliðin 80 ár. Tilefnið er fréttaflutningur af málefnum vistheimilisins Arnarholts. Samtökin sendu erindið til velferðarnefndar Alþingis fyrir tíu dögum. Á síðasta fundi nefndarinnar kom fram einhugur um að ráðast í rannsókn á aðbúnaði í Arnarholti og á öðrum vistheimilum. Skiptar skoðanir voru þó um hvort sérstök rannsóknarnefnd Alþingis ætti að skoða málið, eða nefnd á vegum forsætisráðuneytisins. Málið var rætt að nýju á fundi velferðarnefndar í morgun. 

„Nefndin er einhuga um að það þurfi að fara í rannsókn á aðbúnaði, þjónustu og meðferð fullorðins fólks með fatlanir, þroskaskerðingar eða geðræn veikindi. Það var algjör einhugur í nefndinni um slíkt,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar.

„Það sem liggur fyrir núna er að fara í rannsókn á umfanginu, og hvaða leiðir eru bestar. Hvort við förum í að útvíkka lög um vistheimilanefndina svokölluðu eða hvort við förum í að skipa sérstaka rannsóknarnefnd Alþingis um málið.“

Stórt skref

Helga Vala segir að kallað verði eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu, um hvernig hliðstæðar rannsóknir hafa farið fram, hvaða leiðir séu heppilegastar og hvert umfangið kunni að vera. Til dæmis þurfi að ákveða hversu mörg heimili eigi að skoða, hversu marga einstaklinga og yfir hversu langan tíma rannsóknin eigi að ná. Óskað sé eftir því að upplýsingarnar berist fyrir 1. febrúar.

„Og þegar við höfum fengið þær upplýsingar mun nefndin taka ákvörðun um framhaldið. En það er sem sagt búið að taka ákvörðun um að fara í þessa rannsókn og ég tel að það sé stórt skref í okkar sögu.“

En þarf ekki Alþingi að staðfesta þá ákvörðun, að fara í þessa rannsókn?

„Jú vissulega. Það er nefndin sem er skipuð þverpólitískt fulltrúum allra flokka sem leggur það fyrir Alþingi að fara ákveðna leið. Og auðvitað þarf Alþingi að samþykkja það. Þannig að það er orðum aukið að nefndin taki ákvörðun um það.“

Í þessum upplýsingum sem verið er að kalla eftir frá forsætisráðuneytinu, er þá óskað eftir upplýsingum um hvað svona rannsókn getur kostað?

„Við óskuðum ekki eftir því. En það fer auðvitað eftir umfanginu. Það fer eftir því hversu mörg heimili eru undir, og hversu mörg ár. En þetta kostar alltaf ákveðinn pening.“

Hefurðu rætt beint við forsætisráðherra um þessa leið?

„Já reyndar, ég hef gert það.“

Og hvernig hugnast henni þessi leið sem þið hafið ákveðið?

„Hún tók erindi mínu mjög vel. Við ræddum saman fyrir helgi og hún hefur svo sem komið með það fram í fjölmiðlum að hún tekur undir nauðsyn þessa,“ segir Helga Vala.