Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur að Seyðisfjörður yrði eins og verksmiðja

23.11.2020 - 09:43
Hópur Seyðfirðinga berst gegn áformum um 10 þúsund tonna laxeldi í firðinum og telur að það myndi spilla ásýnd staðarins. Þó hafsvæðaskipulag sé í vinnslu þarf eldið ekki að taka tillit til þess.

Fiskeldi Austfjarða áformar fjögur eldissvæði í Seyðisfirði og yrðu kvíar í mest þremur í einu. Sveitarfélög hafa ekki skipulagsvald á fjörðum en ytri svæðin þurfa samþykki Hafrannsóknastofnunar, eitt þeirra yrði við friðlandið í Skálanesi. Stefnt er að því að setja út fyrstu seiðin á næsta ári í Sörlastaðavík, árið eftir í Selsstaðavík og 2023 í Skálanesbót. 

Safna undirskriftum gegn eldinu

Innsta eldissvæðið við Háubakka gæti verið háð vilja sveitarfélagsins enda innan helgunarsvæðis hafnarinnar. Það yrði sýnilegt frá þorpinu þar sem Þóra og Benedikta reka farfuglaheimilið Hafölduna. Þær hafa safnað undirskriftum gegn eldinu. „Ég hringdi í einn í hverri götu og þau fóru og söfnuðu í sinni götu og undirtektirnar voru bara frábærar,“ Þóra Bergný Guðmundsdóttir arkitekt.

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Haföldunnar, segir að nokkrir hafi verið hlutlausir og viljað kynna sér málið betur. „Langflestir sögðu takk fyrir að koma og skrifuðu undir. Höfðu kynnt sér málið og voru alveg harðir á því að þetta væri ekki framtíð Seyðisfjarðar. Ekki Seyðisfirði til heilla.“

Eldinu fylgi bæði störf og tekjur

Fiskeldi Austfjarða sem nú er með eldi í Berufirði og Fáskrúðsfirði bendir á í frummatsskýrslu að eldinu fylgi bæði störf og tekjur fyrir sveitarfélagið. Margir Seyðfirðingar telja hins vegar að eldið spilli útsýni frá bæjarfjallinu Bjólfi en þangað er vinsælt að fara til að horfa yfir. Benedikta telur að sjónræn áhrif af eldinu muni spilla upplifun þeirra sem sigla til Seyðisfjarðar á skemmtiferðaskipum. „Þetta fer ekki saman,“ segir hún. Þóra telur að það verði eins og að sigla inn í verksmiðju að koma til fjarðarins. „Það á að demba yfir okkur 10 þúsund tonna laxeldi. Bíddu megum við vera í friði hérna heima hjá okkur,“ segir hún.

Nýtt haf- og strandsvæðaskipulag seint á ferðinni

Nú hefði verið gott að hafa nýja haf- og strandsvæðaskipulagið sem svæðisráð með fulltrúum sveitarfélaga vinnur fyrir Austfirði. Það hefði mögulega geta sætt sjónarmið um hvar kvíar megi vera og hvar ekki. Á Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og mögulega víðar verða staðir fyrir kvíar nú að óbreyttu valdir óháð þessu nýja skipulagi. Í frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða kemur fram að lög um það frá 2018 eru ekki afturvirk og eiga því ekki við um eldi sem þá var komið í ferli. Vísað er í nefndarálit samgöngu- og umhverfisnefndar Alþingis frá 7. júní 2018. Skipulagsstofnun og Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa gagnrýnt þetta.

„Það eru bara svo margar ástæður fyrir því að það þarf að skoða þetta miklu betur. Fyrst og fremst þurfum við sem búum hérna að fá að hafa eitthvað um þetta að segja,“ segir Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Haföldunnar.

Fiskeldi Austfjarða hefur sagst vilja gott samstarf við heimamenn og áformar kynningarfund á Seyðisfirði á næstunni.