Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stoltenberg hlakkar til að vinna með Biden

23.11.2020 - 08:03
Mynd með færslu
 Mynd: NATO
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segist hlakka til að vinna með Joe Biden, eftir að hann tekur við forsetaembættinu í janúar. Stoltenberg ræddi um fækkun bandarískra hermanna í Afganistan í viðtali á alþjóðlega öryggisþinginu í Halifax í gær.

Stoltenberg hefur áður lýst áhyggjum af því að fækka of hratt hermönnum í Afganistan. Hann sagði stefnu Bandaríkjamanna í Afganistan skýra, Bandaríkjamenn muni fækka hermönnum úr um 4.500 í 2.500. Engin NATO þjóð vill vera lengur í Afganistan en þarf, sagði hann. 

Taka erfiða ákvörðun snemma næsta árs

Stoltenberg sagðist styðja við friðarviðræður Talibana og ríkisstjórnarinnar en að tryggja þrufi áfram að Afganistan verði aldrei öruggur staður fyrir skipulagningu alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi.

Hluti samkomulags Talibana og Bandaríkjamanna er að allir hermenn séu farnir þann 1.maí á næsta ári. Því þurfi að taka erfiða ákvörðun snemma á næsta ári um hvort hætt verði á að fara og glata mögulega árangri sem náðst hefur eða vera áfram í krefjandi hernaðaraðgerðum í Afganistan. 

„Mín skilaboð eru þau að við verðum að meta hvort skilyrðin fyrir brotthvarfi séu uppfyllt saman,“ sagði Stoltenberg en meira en helmingur herliðsins í Afganistan er frá öðrum löndum en Bandaríkjunum. „Við fórum til Afganistan saman og eigum að ákveða hvernig viðverunni þar er háttað saman. Þegar tíminn er réttur eigum við að yfirgefa svæðið saman en á samhæfðan máta.“ 

„Ég veit að Joe Biden er dyggur stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins og samvinnu Norður-Ameríku og Evrópu. Ég hlakka til að vinna með honum.“ sagði Stoltenberg. 

Síðasti dagur ársfundar NATÓ-þingsins fer fram í dag sem fjarfundur. Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokknum, Willum Þór Þórsson, Framsóknarflokknum, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Viðreisn, taka þátt fyrir Íslands hönd.

„Netöryggismál er eitt allra stærsta málið á vettvangi NATO-þingsins í dag og stór þáttur í umræðu og vinnu þingsins,“ sagði Njáll Trausti á Facebook síðu sinni.