Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Spítalinn þarf að hagræða um samtals 4,3 milljarða

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Landspítalinn stendur frammi fyrir 400 milljóna króna aðhaldskröfu í fjárlagafrumvarpi næsta árs til viðbótar við uppsafnaðan halla spítalans um áramót og hærra rekstrarkostnaðarmat. Samtals þarf spítalinn hagræða um 4,3 milljarða króna á næsta ári en hefur óskað eftir því að vinna hallan upp á þremur árum.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins í dag segir að aðhaldskrafa fjárlagafrumvarpsins sé 400 milljónir, í takt við 0,5% aðhaldskröfu sem er gerð þvert á heilbrigðisstofnanir á fjárlögum næsta árs.

Í fréttum RÚV á laugardag kom fram að aðhaldskrafa spítalans í heild væri um 4,3 milljarðar og vitnað í bréf spítalans til heilbrigðisráðherra um fjárhagsáætlun næsta árs. Og þar er vitnað í bréf ráðuneytisins til spítalans:

„Rekstraráætlunin skal byggjast á fjárlagafrumvarpinu til þeirrar starfsemi sem heyrir undir stofnunina, að teknu tilliti til áætlaðrar lokaniðurstöðu ársins 2020.“

Rekstur Landspítalans hefur farið fram úr fjárlögum síðustu ár. Uppsafnaður halli rekstrarins í lok árs 2019 var um 3,8 milljarðar króna. Samkvæmt útkomuspá sem byggir á bráðabirgðauppgjöri spítalans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020 stefnir í að reksturinn skili rúmum milljarði króna í afgang, sem kemur til frádráttar uppsöfnuðum halla. Uppsafnaður halli á rekstri spítalans verður þá 2,7 milljarðar króna um áramót.

Til þess að þessi áætlun gangi eftir miðar spítalinn við að fá sérstakar fjárveitingar til að mæta kostnaði vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Spítalinn sendi heilbrigðisráðuneytinu erindi þess efnis í lok síðasta mánaðar og væntir svara.

Í fjárlögum er gert ráð fyrir að rekstur spítalans muni kosta um 71,7 milljarða króna en miðað við óbreyttan rekstur Landspítalans áætlar hann að reksturinn muni kosta 73,2 milljarða króna á árinu 2021. Það er 1,5 milljarða króna gat sem kemur til viðbótar við uppsafnaðan rekstrarhalla spítalans.

„Landspítalinn stendur þá frammi fyrir að óbreyttu að þurfa að takast á við 4.267,8 m.kr. hagræðingarkröfu á næsta ári skv. fyrirmælum ráðuneytisins,“ segir í bréfi spítalans til ráðherra.