Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skipverjar kljást enn við líkamleg og sálræn eftirköst

Mynd: Jóhannes Jónsson / RUV.is
Sjópróf fór fram fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í dag í máli skipverjanna á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Sjóprófið átti að leiða í ljós hvað gerðist um borð þegar 22 af 25 áhafnarmeðlimum sýktust af COVID-19.

Sóttvarnalæknir skýr við skipstjóra um að fara í sýnatöku

Þeir skipverjar sem í dag báru vitni voru samhljóða um að COVID-19 hefði komið til umræðu nokkuð fljótt í túrnum. Strax á fyrstu dögum voru þó nokkrir lagstir og margir höfðu áhyggjur af að sýking væri um borð. 

Skipverjar sögðu í dag skipstjórann endurtekið hafa sagst vera í samskiptum við umdæmislækni sóttvarna. Ákvörðun um að halda ekki þegar í stað til lands í sýnatöku hefði verið tekin með vitund læknis. Sóttvarnalæknir neitaði því í morgun og sagðist í vitnisburði sínum hafa verið skýr við skipstjóra að halda ætti í land og fara með veika menn í sýnatöku. Læknirinn fylgdi því ekki eftir, það væri ekki í hans verkahring, en gekk út frá því að það hefði verið gert - allt þar til skipstjórinn hafði svo samband aftur tæpum þremur vikum síðar. Þá hafði meirihluti skipverja veikst, þeir hrunið eins og flugur, og ekki vafi lengur um að COVID-smit væri um borð.

Sjópróf fór fram fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í dag í máli skipverjanna á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Sjóprófið átti að leiða í ljós hvað gerðist um borð þegar 22 af 25 áhafnarmeðlimum sýktust af COVID-19. 

Staðhæfingar skipstjórans um samskipti við lækni friðaði marga skipverja og það varð til þess minnst einu sinni að skipverji ákvað að hafa ekki persónulega samband við sóttvarnayfirvöld vegna stöðunnar um borð. Einn sagði að aldrei hefði komið honum til hugar að fara á svig við yfirmann sinn og hafa sjálfur samband.

Það kom sóttvarnalækni verulega á óvart að skipið hefði farið aftur út á miðin að sýnatöku lokinni. Fyrirmæli hans hefðu verið að skipið skyldi ekki fest við bryggju en ætti að halda sig nálægt landi. 

Þrýstingur um að halda áfram vinnu

Áhöfnin var ekki á einu máli um hvort menn hefðu verið neyddir til að vinna. Skipstjóri hefði aldrei skipað mönnum beint að fara til vinnu, en mikill þrýstingur hefði verið um það. Þá hefði ótti um að missa vinnuna vegið þungt hjá mörgum. 

Skipverjar sem spurðir voru staðfestu að tilmæli hefðu komið úr brúnni um að tjá sig ekki um veikindin um borð á Facebook eða við fjölmiðla. 

Sálræn og líkamleg eftirköst

Margir skipverjanna kljást enn við eftirköst veikinnar og eru nú óvinnufærir. Þá lýstu margir þeirra sálrænum eftirköstum sem reyndu ekki síður á en líkamlegu veikindin. 

Þá er enn margt á huldu um samskipti skipstjóra við útgerðina. Einn skipverja sagðist til dæmis gruna að hún hefði tekið fram fyrir hendur skipstjóra í ákvörðunum. 

Mynd með færslu
Arnar Hilmarsson sagði frá því sem gerðist um borð í fréttum RÚV

Tímalína yfir atvik málsins: 

Það var 19. október sem fyrst var greint frá því að meirihluti áhafnar frystiskipsins Júlíusar Geirmundssonar, sem gerður er út af Hraðfrystihúsinu Gunnvöru á Ísafirði, hefði greinst með COVID-19. Skipið hafði þá verið á veiðum í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni.

20. október, daginn eftir fór sýnataka fram og þá kom í ljós að 19 af 25 skipverjum voru smitaðir.

21. október sendi útgerðin frá sér yfirlýsingu þar sem kom meðal annars fram að í ljósi þeirrar vitneskju sem þá lægi fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar og senda alla í áhöfn í skimun.

22. október fengu sjómennirnir að fara í land og þann sama dag kom í ljós að smitin voru orðin 22. Þá kom fram í yfirlýsingu Sjómannasambandsins að útgerðin hefði hafnað ítrekuðum beiðnum sóttvarnalæknis um að koma í land vegna veikinda skipverjanna.

23. október var greint frá því að sumir í áhöfninni hefðu verið alvarlega veikir, með háan hita og öndunarörðugleika. Þann sama dag sagði Verkalýðsfélag Vestfirðinga að skipverjum hefði verið haldið nauðugum og veikum við vinnu á sjó á meðan sýking herjaði á áhöfnina.

24. október steig fyrsti skipverjinn fram og sagði meðal annars að erfitt hefði verið að horfa upp á þá veikustu.

25. október, daginn eftir þetta viðtal sagði Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri Gunnvarar að fyrirtækið hefði gert þau reginmistök að hafa ekki samband við Landhelgisgæsluna þegar veikindi komu upp um borð. Það hefði verið mat skipstjórnenda að ekki væri verið að leggja skipverja í hættu með því að halda veiðum áfram þrátt fyrir veikindi um borð. Þann sama dag sagðist sjávarútvegsráðherra vera sleginn vegna málsins.

26. október hóf lögreglan á Vestfjörðum sakamálarannsókn á málinu. 27. október tóku fimm stéttarfélög sig saman um að kæra skipstjórann og útgerðina. Daginn eftir lauk svo skýrslutökum.

17. nóvember lýstu skipverjar yfir vantrausti á skipstjórann og kröfðust þess að hann hætti störfum um borð í togaranum.

23. nóvember, í dag, fór svo fram sjópróf í málinu.