Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sigur í Michigan og Biden farinn að velja í ríkisstjórn

epa08837919 (FILE) - Former Vice President Joe Biden (R) hugs former Secretary of State John Kerry (L) as Biden campaigns to be the 2020 Democratic presidential nominee at the Roosevelt Creative Corridor Business Academy in Cedar Rapids, Iowa, USA, 01 February 2020 (Reissued 23 November 2020). Former Secretary of State John Kerry will be the special presidential envoy for climate for US President-elect Joe Biden.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kjörstjórn í Michigan staðfesti í kvöld sigur Joes Biden í ríkinu í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Biden var lýstur sigurvegari í Michigan og fékk þá 16 kjörmenn sem þar eru undir, en enn var beðið eftir endanlegri staðfestingu sem barst loks í kvöld. Biden fékk 156 þúsund atkvæðum meira en Donald Trump í ríkinu.

Á meðan síðustu ríkin klára talningu og endurtalningu undirbýr Biden sig undir stjórnarskiptin. Hann tilkynnti í dag sex einstaklinga sem fara með utanríkismál í nýrri ríkisstjórn.  

Meðal þeirra eru John Kerry, fyrrverandi ráðherra sem verður ráðgjafi forsetans í loftslagsmálum, og Linda Thomas-Greenfield sem verður fyrsti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum af rómönskum uppruna.

Antony Blinken, einn helsti bandamaður Bidens, verður utanríkisráðherra og er ætlað að leiða Bandaríkin á ný inn í Parísarsamkomulagið.

Fleiri tilnefningar í ríkisstjórn eru væntanlegar í vikunni. Fjölmiðlar búast við að hin 74 ára gamla Janet Yellen verði skipuð fjármálaráðherra. Hún yrði þá fyrsta konan sem gegnir embættinu, en hún var áður bankastjóri Seðlabankans í Bandaríkjunum.

Donald Trump sést nú lítið opinberlega, þá helst á leið til og frá golfvellinum. Á meðan eru tilraunir lögfræðiteymis hans árangurslitlar, en dómari í Pennsylvaníu vísaði frá kröfu um að ógilda bæri sjö milljónir póstatkvæða í ríkinu. Frávísuninni hefur verið áfrýjað, en verði krafan ekki tekin til greina má segja að Trump verði endanlega kominn út í horn, því Pennsylvanía er lykillinn að því að hann telji sig fræðilega geta snúið niðurstöðum kosninganna sér í vil.