Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ökumaður bílsins sem brann með réttarstöðu sakbornings

23.11.2020 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Ökumaður fólksbíls sem hafnaði utan vegar og varð alelda við bæinn Ytri-Bægisá í Öxnadal hefur réttarstöðu sakbornings. Þá bendir margt til þess að bílnum hafi verið ekið yfir löglegum hámarkshraða. Þetta staðfestir Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Bílnum líklega ekið of hratt

„Ummerki á vettvangi og framburðir vitna gefa vísbendingu um að aksturshraði hafi verið yfir löglegum hámarkshraða. Verður það því rannsakað sérstaklega og hefur lögreglan kallað til sérfræðing í hraðaútreikningum til að reikna út ætlaðan hraða ökutækisins, byggt á gögnum málsins,“ segir Bergur Jónsson í samtali við fréttastofu.

Engin hálka og góðar aðstæður

Slysið varð á þjóðvegi 1 til móts við bæinn Ytri-Bægisá í Öxnadal í Hörgársveit föstudaginn 6. nóvember. Samkvæmt ummerkjum á á vettvangi var bifreiðinni ekið til norðurs en hafnaði síðan út af veginum og valt nokkrar veltur áður en eldur kviknaði í bílnum. Engin hálka var á veginum umræddan dag. Tvennt var í bílnum og slösuðust þau og voru lögð inn á gjörgæslu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ökumaður með réttarstöðu sakbornings

Bergur segir ummerki á vettvangi slyssins og framburðir vitna, benda til þess að ekið hafi verið yfir löglegum hámarkshraða. Verður atvikið því rannsakað frekar og ætlaður hraði bílsins reiknaður út með aðstoð sérfræðings. Farþegi í bílnum slasaðist töluvert og er málið rannsakað sem líkamsmeiðing af gáleysi. Ökumaðurinn hefur því réttarstöðu sakbornings. Hann segir ekki ljóst Ekki ljóst hvenær rannsókn lýkur.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Slysið varð á þjóðvegi 1 til móts við bæinn Ytri-Bægisá í Öxnadal í Hörgársveit