Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýtt bóluefni ódýrara og auðveldara að flytja

epa08836974 A handout photo dated 20 November 2020 and made available by the Oxford University 23 November 2020, showing a vial with vaccine developed jointly by the Oxford University and AstraZeneca, Oxford, United Kingdom. The Oxford University/AstraZeneca coronavirus vaccine has an average efficacy of 70.4 per cent in preliminary results, Oxford University/AstraZeneca announced on 23 November 2020, and can be stored in a standard fridge.  EPA-EFE/OXFORD UNIVERSITY / JOHN CAIRNS / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - OXFORD UNIVERSITY
Bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla við COVID-19 sem nú er í þróun virkar í allt að 90 prósentum tilfella og er ódýrara í framleiðslu og auðveldara er að flytja það en önnur sem fram hafa komið. Virkni þess er hins vegar mismunandi eftir því hvernig því er skammtað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá AstraZeneca, sem er breskt-sænskt lyfjafyrirtæki. Pascal Soriot, forstjóri fyrirtækisins, segir að virkni bóluefnisins og öryggi staðfesti að það verði afar gagnlegt í baráttunni við COVID-19 og hafi strax áhrif til að kveða niður faraldurinn. Andrew Pollard, prófessor við Oxford-háskóla, sem fer fyrir þróun efnisins, segir bóluefnið virka og að það eigi eftir að bjarga mannslífum.

Einungis þarf að geyma það í hefðbundnum kælibúnaði og ekki frysta eins og bóluuefni Pfizer og BioNTech. Það er einnig ódýrara en bóluefni Moderna sem mun að sögn fyrirtækisins kosta um 25 dollara skammturinn, rúmar 3300 krónur og bóluefni Pfizer 20 dollara skammturinn eða rúmar 2700 krónur. Bóluefni AstraZeneca kostar þrjá til fjóra dollara skammturinn eða 400-550 krónur.

Bóluefni AstraZeneca byggist á öðrum grunni en bóluefni Pfizer og Moderna. Í stað þess að nota hluta úr COVID-19 veirunni byggist það á erfiðabreyttri kvefveiru sem smitar simpansa.

Mismunandi virkni eftir því hvernig efnið er gefið

Tilraunir með bóluefnið, sem nefnist AZD1222, hafa farið fram undanfarið í Bretlandi og Brasilíu og yfir 23 þúsund manns tekið þátt í þeim. Af þeim sem fengu bóluefnið smituðust 101 af COVID-19 og 30 þeirra sem fengu lyfleysu.

Athygli vekur að virkni þess gegn smiti er mjög mismunandi eftir því hvernig það er gefið. Alls fengu 8.895 tvo heila skammta af bóluefni með mánaðar millibili og 2.741 fékk hálfan skammt og síðan heilan skammt mánuði síðar. Af fyrri hópnum reyndist efnið aðeins tryggja vörn gegn smiti í 62% tilfella en í 90% tilfella í síðari hópnum.

Pollard segir að þessi niðurstaða sé forvitnileg og geti gert það að verkum að mun fleiri verði bólusettir en vonir stóðu til. Þó ber að taka niðurstöðunum með fyrirvara þar sem þetta eru klínískar tilraunir. Í tilkynningunni frá AstraZeneca er ekki gerð nánari grein fyrir því hverjar ástæðurnar fyrir þessu kunna að vera.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC eru hugsanlegar ástæður þess að ef fólk fær of stóran skammt af bóluefninu hafni líkaminn því eða að með því að fá fyrst lítinn og síðan stóran skammt líkist bóluefnið frekar því hvernig fólk smitast af COVID-19 og þá bregðist ónæmiskerfið betur við.

Auk þess að vernda fólk fyrir smiti virðist sem bóluefnið komi í veg fyrir að þeir sem þrátt fyrir allt fá COVID-19 þrói með sér jafn alvarleg einkenni og fylgt geta smiti. Af 101 sem fékk COVID-19 þrátt fyrir bólusetningu lagðist enginn inn á spítala. Ýmislegt bendir til þess að þeir sem fá bóluefnið og jafnframt COVID-19, en eru einkennalausir, smiti minna út frá sér en þeir sem smitast og eru einkennalausir, án þess að hafa fengið bóluefni, segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Fréttatilkynningar ekki nóg

Peter Piot, yfirmaður London School of Hygiene and Tropical Medicine, segist mjög ánægður með niðurstöðurnar í viðtali við Science, einkum hvað varðar þá miklu virkni sem bóluefnið virðist hafa hjá þeim sem fengu fyrst hálfan skammt af efninu og síðan heilan. Af þessum sökum mætti gera ráð fyrir því að fleiri gætu verið bólusettir fyrr, meðan framleiðsla á bóluefninu er enn að komast á fullt skrið.

Engu að síður segist hann vonsvikinn yfir því að lyfjafyrirtæki hafi hingað til einungis sent frá sér fréttatilkynningar um niðurstöður bóluefnatilrauna en ekki veitt óháðu vísindafólki aðgang að niðurstöðunum. Þörf sé á fullkomnu gagnsæi svo vísindasamfélagið getið metið þær.