Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Neyðarástand meðal milljóna í Afganistan

epa08823607 People flee their villages as clashes continue between Taliban and security forces in different districts of Helmand province, in Lashkargah, Helmand, Afghanistan, 16 November 2020. The Taliban has launched major offensives in Afghanistan, including the capture of a district center Dehrawod district in Uruzgan province, amid ongoing intra-Afghan peace talks with the government. The two sides are negotiating an end to the Afghan war, raging since 2001 when the US invaded the country.  EPA-EFE/WATAN YAR
Þrjú hundruð þúsund hafa flúið að heiman í ár í Afganistan undan hernaðaraðgerðum og hryðjuverkum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Milljónir Afgana eiga allt sitt undir því að samfélag þjóðanna haldi áfram að veita þeim mannúðaraðstoð, að sögn yfirmanns Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ófriður í landinu hefur hrakið hundruð þúsunda á vergang á þessu ári.

Filippo Grandi, yfirmaður stofnunarinnar, er nýkominn frá Afganistan, þar sem hann kynnti sér ástandið. Á tveggja daga ráðstefnu þeirra sem veitt hafa Afgönum mannúðarstyrki sagði hann að ófriður í landinu færðist í aukana, friðarviðræður stjórnvalda og talibana hefðu litlu skilað til þessa og bandarísk stjórnvöld stefndu að því að fækka um tvö þúsund manns í herliði sínu innan nokkurra vikna.

Grandi sagði að milljónir Afgana ættu allt sitt undir því að samið yrði um frið við talibana. Þrjú hundruð þúsund hefðu hrakist að heiman á þessu ári vegna ófriðarins og þyrftu bráðnauðsynlega á aðstoð að halda. Hið sama ætti við um hátt í þrjár milljónir sem voru á hrakhólum fyrir vegna stríðsins og nú hefðu níu milljónir bæst við, sem hefðu misst lífsviðurværi sitt vegna COVID-19 farsóttarinnar. Ástandið er að sögn Grandis þannig að ef dregið verður úr mannúðaraðstoð við Afgana verða afleiðingarnar hörmulegar og árangur sem náðst hefur á síðustu árum verður að engu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV