Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikilvægara að fá gott mótefni núna en fullkomið seinna

23.11.2020 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - Rúv
Yfirlæknir og prófessor í smitsjúkdómum við Háskóla Íslands fagnar nýjustu fréttum um þróun bóluefnis. Mikilvægara sé að hafa fljótlega aðgang að bóluefni sem virkar vel, heldur en að hafa seint og síðar meir aðgang að bóluefni sem virkar fullkomlega.

Þróun þriggja bóluefna á lokametrunum

Á fundi almannavarna í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að almenn bólusetning væri lykillinn út úr faraldrinum. Miðað við fréttir dagsins af þróun bóluefnis Astra Zeneca gæti biðin farið að styttast verulega.

„Það er náttúrulega mikið fagnaðarefni að sjá núna þrjú bóluefni á stuttum tíma sem öll sýna ágæta vörn. Þetta er bóluefni sem hefur verið mikið beðið eftir, það má segja að það valdi samt sem áður ákveðum vonbrigðum að virknin skuli vera heldur lakari við fyrstu sýn heldur en í hinum tveimur sem fjallað hefur verið um. En engu að síður virðist virknin vera góð,“ segir Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir við smitsjúkdómadeild Landspítalans og prófessor í smitsjúkdómalækningum við HÍ.

Tíminn skiptir miklu máli

Magnús bendir á að hægt sé að ná fram níutíu prósenta vörn með bóluefninu ef rétt er staðið að málum. Efnið er eitt þeirra sem Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér aðgang að.  

„Ég held að tíminn skipti hér ansi miklu máli. Það er vitaskuld mikilvægt á tímum sem að faraldur geisar að hafa aðgang að bóluefni sem virkar vel, frekar en að hafa aðgang seint og síðar meir að bóluefni sem virkar fullkomlega, ef faraldurinn er þá yfirstaðinn,“ segir Magnús.

Vonast til bólusetninga upp úr áramótum

En hvenær verður hægt að byrja að bólusetja hér á landi miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir?

„Það er talað um að þessi bóluefni verði mögulega komin með leyfi frá eftirlitsaðilum í kringum áramótin. Þannig að ég vonast til þess að það verði hægt að hefja bólusetningar mjög fljótlega í kjölfar þess,“ segir Magnús Gottfreðsson.