Lífið er yndislegt

Mynd með færslu
 Mynd: Hreimur - Skilaboðin mín

Lífið er yndislegt

23.11.2020 - 11:22

Höfundar

Skilaboðin mín er ný sólóplata Hreims Arnar Heimissonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt var plata síðustu viku á Rás 2.

Það hellist yfir mig ljúf fortíðarþrá við að hlusta á þessa plötu. Þannig vill til að ég hóf störf á Morgunblaðinu sem fastur penni árið 2000, þegar íslenska poppvorið stóð sem hæst. Ég skrifaði langar og útpældar greinar um Skítamóral, Írafár, Á móti sól, Sóldögg, Buttercup, Í svörtum fötum og Land og syni á um þriggja ára tímabili.

Ég hafði metnað til þess að sýna allri tónlist virðingu og þessi geiri fékk svo sannarlega að finna fyrir því. Land og synir er sveit sem mér hefur alltaf þótt vænt um. Framsækið verk þeirra frá 1999, Herbergi 313, var eitt af mínum fyrstu verkefnum og næstu ár fylgdist ég grannt með sveitinni og söngspíru hennar, Hreimi. Og hér erum við, rúmlega tuttugu árum síðar, og viðfangið ný sólóplata téðrar spíru. Öll lög og textar eru eftir Hreim en plötuna vann hann að langmestu leyti með Vigni Snæ Vigfússyni sem útsetti, tók upp og spilaði á það sem hendi var næst. Benedikt Brynleifsson (trommur), Matthías Stefánsson (fiðla) og Jón Guðfinnsson (bassi) lögðu og gjörva hönd á plóg ásamt fleirum.

Ég hef alltaf hrifist af söngrödd Hreims. Hún er sterk og skýr en um leið löngunar- og ástríðufull. Maður trúir honum m.ö.o. þegar hann beitir sér. Hann nær að sveigja frá óþarfa væmni og neglir flutninginn oftast nær, gefur það sem þarf hverju sinni. Opnunarlag plötunnar, titillagið, er frábært dæmi um þessa hæfileika hans. Hreimur er fullkomlega innan rammans í þessu kraftmikla, nánast epíska lagi, syngur af krafti og einlægni en fer aldrei í tilgerð eða væmni eins og ég lýsi hér að framan. Undirspil er með miklum ágætum, fantafínn hljómsveitarhljómur. Tónlistin er hefðbundið popprokk, melódískt nokk og afskaplega íslenskt svona oftast nær.

Önnur lög eru sirkabát á þessu rófi. Miðnætursól er rólegra en það er samt allt undir. Gegnum tárin eru ballöðukennd, kassagítardrifin og vinaleg smíð, get eiginlega ekki lýst því betur. Lítið hús nýtur liðsinni Fríðu nokkurrar Hansen, snoturt lag og með þessum indælisblæ sem er eitt af höfundareinkennum okkar manns.

Það er ágætis heildarbragur yfir plötunni þó að lagasmíðarnar séu vissulega missterkar. Kraftbomban Aldrei bara ég og þú er eina lagið hér sem mér finnst virka illa, rokkboginn spenntur aðeins of hátt. Hreimur er hins vegar á heimavelli í innilegum lögum eins og lokalaginu, Bálið brennur, hugljúf ballaða sem nær glæsilega landi. En hann er líka firnagóður þegar hann nær að samþætta þetta tvennt, hugljúfan brag og orku, líkt og hann gerir í titillaginu.

Allt í allt hið frambærilegasta verk. Einlægt, heiðarlegt og framreiðsla öll hin fagmannlegasta.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Hreimur - Skilaboðin mín

Popptónlist

Heimsótti ókunnuga stúlku og söng ástarlag til hennar

Popptónlist

„Sævar, ég var að spila í vitlausu brúðkaupi“