Komst fyrst í tæri við óperulistina fyrir náð dyravarða

Mynd: RÚV / ÍÓ

Komst fyrst í tæri við óperulistina fyrir náð dyravarða

23.11.2020 - 12:26

Höfundar

Halla Oddný Magnúsdóttir varð uppnumin af hrifningu þegar hún fór á sína fyrstu óperutónleika átta ára gömul ásamt systur sinni. Böggull fylgdi hins vegar skammrifi og þurftu systurnar að deila einu sæti á tónleikunum.

Íslenska óperan er 40 ára í ár. Af því tilefni er litið til baka og góðra stunda minnst. Þátttakendur úr ýmsum áttum deila minningum sínum og upplifun af óperum.

„Allra fyrstu minningar mínar um óperutónlist eru plata sem var til heima hjá mér, af Töfraflautunni eftir Mozart,“ segir Halla Oddný Magnúsdóttir, viðburða- og skipulagsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Svo gerðist það að upp var sett La Traviata í Gamla bíói hjá Íslensku óperunni og mömmu fannst mjög mikilvægt að ég og systir mín færum og misstum ekki af þessu. En það voru kannski ekki til voðalega miklir peningar. Hún brá á það ráð að senda okkur bara tvær saman en keypti samt bara eitt sæti. Þannig að ég þurfti að sitja ofan á systur minni sem hún var svona miðlungi ánægð með – og miðlungi ánægð með að þurfa að hafa mig með til þess að byrja með. Þannig að þetta var svona hóflega skemmtilegt fyrir hana. En ég man að ég var algjörlega uppnumin. Og fyrir náð einhverra dyravarða sem sáu að þarna var mikilvægt að ungt fólk kæmist í tæri við óperulistina, þá var okkur hleypt inn og við fengum að vera svona.“

Mynd með færslu
 Mynd: - - Íslenska óperan/RÚV
Söngkonan Diddú fór með hlutverk Violettu í uppsetningu Íslensku óperunnar á La Traviata.

Halla Oddný hefur upplifað töframátt óperunnar oft og mörgum sinnum eftir þetta. 

„Sérstakast var sennilega að fá tækifæri til þess að fara til Bayreuth í Þýskalandi í þessa mekku Wagner-maníunnar og vera þar, þar sem bara heilt þorp einhvern veginn umturnast. Göturnar heita Siegfriedstraße og það er Niebelungengasse. Þetta er náttúrulega ruglað. Allt í þessu þorpi snýst um Wagner og hans arfleifð.“

Hún segir að óperan hafi alltaf verið staður þar sem hið háa og lága mætast. „Þannig er óperukúltúrinn þarna líka. Konurnar á hárgreiðslustofunum voru að velta fyrir sér hvort að Katharina Wagner, afkomandi Wagners, sem var þarna listrænn stjórnandi hátíðarinnar, væri skilin og hvort hún hefði nú ekki grennst. Það var þessi svona hverdagslegi fallegi kjaftagangur í bland við eitthvað rosalega háleitt og alvarlegt.“

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Varð samstundis ástfanginn af Carmen

Klassísk tónlist

Listform fyrir alla skynjun

Klassísk tónlist

„Þetta á eftir að verða drepleiðinlegt!“

Klassísk tónlist

Íslenska óperan 40 ára í dag