„Kannski er tilgangur okkar að vera glöð og elska“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Kannski er tilgangur okkar að vera glöð og elska“

23.11.2020 - 15:00

Höfundar

Í nýrri skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur finnur söguhetjan í dánarbúi frænku sinnar handrit sem fjallar um mannskepnuna, grimmd hennar og veikleika. Báðar eru konurnar ljósmæður og vöktu örlög manna svo mikinn ugg hjá þeirri eldri að hún vildi helst ekki setja hvítvoðunga í fang foreldranna eftir fæðingu.

Í nýjustu skáldsögu sinni, Dýralíf, fjallar Auður Ava Ólafsdóttir um tvær ljósmæður í Vesturbænum. Sú eldri er ömmuhetja söguhetjunnar sem erfði hálfa íbúð frænku sinnar á móti Dýraverndunarsamtökum Íslands. Hún býr því í dánarbúi og á meðal þess sem hún finnur í íbúðinni er gamall bananakassi með pappírum sem ömmsystirin skildi eftir sig. „Þar eru til dæmis greinar sem ömmusystir hennar skrifaði um umhverfismál og dýravernd en líka ófullgerð handrit. Eitt þeirra heitir Dýralíf og gjallar um brothættasta og grimmasta dýrið, sem sagt manninn,“ segir Auður í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni.

„Ég myndi aldrei þora að tala svona umbúðalaust“

Greinarnar skrifaði ljósmóðirin upprunalega þegar hún var að fjalla um umhverfismál en handritið varð að bókinni sem hún skrifaði til að skilja manninn betur. „Af hverju hann hagar sér eins og hann hefur gert,“ segir Auður. „Hún reynir að skilja hvað fer úrskeiðis eftir að við förum út af fæðingadeildinni.“

Ljósmóðirin fer ekkert of varlega í sálmana í skrifum sínum heldur lætur allt flakka. „Ég myndi aldrei þora að tala svona umbúðalaust,“ segir Auður sjálf. Ljósmóðurinni líst reyndar svo illa á horfur hvers manns og uppvöxt að hún er treg til að láta hvítvoðungana í hendur foreldranna eftir fæðingu. „Hún prjónar á öll ljósubörnin sín og pakkar þeim inn en er að velta því fyrir sér í hverju við erum góð og hvað fer úrskeiðis,“ segir Auður. „Hún ber okkur saman við aðrar dýrategundir og samanburðurinn er ekkert endilega okkur í hag.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hugrekkið og æðruleysið

Manninum er þó ekki alls varnað, ljósmóðirin kemst að þeirri niðurstöðu að hann búi þrátt fyrir allt yfir einhverjum jákvæðum eiginleikum. „Það er hugrekki og æðruleysi,“ segir Auður. „En það sem ég held að henni þyki jákvæðast við okkur er að við getum komið á óvart í jákvæðum skilningi fyrir hjörðina.“

„Ég skil útgefandann vel. Ég myndi ekki gefa þetta út“

Bókin er frábrugðin fyrri bókum Auðar að mörgu leyti. Hún fjallar um söguhetjuna sem er að reyna að skilja skrif ömmusystur sinnar en botnar lítið í þeim. Ömmusystirn hafði reynt að koma handritunum á framfæri en það gekk illa. „Hún hefur ekki fengið útgefanda og ég skil þann útgefanda vel. Ég myndi ekki gefa þetta út,“ segir Auður. Handritið sé enda brotakennt og eins og það sé skrifað af mörgum höfundum.

„Hún gefst upp á að skilja manninn og skilja sjálfa sig því það fléttast saman,“ segir hún. „Við eigum oft erfitt með að skilja annað fólk og erum framandi fyrir okkur sjálfum.“

Ekki hægt að fjalla um ljósið án þess að fjalla um myrkrið

Ljósið er þráður í bókinni. „En maður getur ekki fjallað um ljósið án þess að fjalla um myrkrið,“ segir höfundurinn. „Hún gefst upp þessi sögupersóna mín á að skilja manninn og ætlar þá að skilja ljósið og svo held ég að hún gefist líka upp á því og verður mjög upptekin af tilviljuninni undir lokinn. Kannski kemst hún að því að það sé bara tilgangur okkar að vera glöð og elska.“

Rætt var við Auði Övu Ólafsdóttur í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Enginn vill dýrgripina sem fólk safnar og deyr frá

Bókmenntir

Auður Ava fær ein virtustu bókmenntaverðlaun Frakka