Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ísland, Noregur og Bretland semja um verslun

23.11.2020 - 13:12
Atvinnulíf · Efnahagsmál · Erlent · Innlent · Bretland · Brexit · EES · ESB · Noregur · Evrópa · Viðskipti
epa06896641 Anti Brexit campaigners fly EU flags outside the British Houses of Parliament in London, Britain, 18 July 2018. Reports state that British Prime Minister Theresa May said that Brexit 'must be workable' during a meeting with the Liason Committee. The Prime Minister is under pressure from both her Tory Party members and Labour Party MP's over Brexit.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Gengið hefur verið frá samningi milli Íslands, Noregs, Liechtenstein og Bretlands um tímabundinn verslunarsamning vegna útgöngu Breta úr ESB. Samningurinn gildir frá 1. janúar uns formlegt fríverslunarsamkomulag verður undirritað.

Með samningnum er Bretum tryggður aðgangur að mörkuðum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) með sama fyrirkomulagi og nú er fyrir hendi. Því verða ekki settir neinir nýir tollar á vörur landanna á milli þann 31. desember er aðlögunartímabili vegna útgöngu Breta úr ESB líkur.

Að sögn Iselin Nybø, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, er samningurinn mikilvægt skref til að tryggja að engar nýjar álögur séu settar á vöruflutninga landanna á milli, á meðan viðræður um fríverslunarsamkomulag standa yfir. Markmið norskra stjórnvalda sé að tryggja áframhaldandi viðskiptasambönd og að fyrirtæki verði fyrir sem minnstri röskun meðan viðræður fara fram um fríverslunarsamkomulag.

Gert er ráð fyrir að samningurinn verði undirritaður af ráðherrum um miðjan desember en hann var áritaður af embættismönnum ríkjanna í síðustu viku. Hann byggir að mestu leiti á fyrri samningi Breta og Norðmanna frá apríl í fyrra, sem gerður var ef ske kynni að hinir fyrrnefndu gengju úr ESB án samnings. Bretar greiddu atkvæði með því að ganga úr sambandinu árið 2016.

Aldrei eins og EES-samningurinn

Viðskipti milli landanna þriggja byggja enn sem komið er á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og verður hinn nýi samningur í anda hans. Auk Íslands og Noregs tilheyrir Liechtenstein EES.

Þrátt fyrir að Nybø bindi miklar vonir við væntanlegan samning er engu að síður viðbúið að vandkvæði fylgi úrgöngu Breta úr ESB. Fríverslunarsamningur komi ekki í stað EES-samningsins, sama hve víðtækur hann kann að verða að því er segir í tilkynningu á vef norsku ríkisstjórnarinnar. Viðskiptalífið þurfi að vera við því búið að tollar á varning og þjónustu verði settir á.

Þrátt fyrir að tímabundið samkomulag hafi náðst er allt kapp lagt á að ljúka heildstæðum fríverslunarsamningi milli EES og Bretlands. Nybø segir að tryggja verði að samningurinn sé eins hagstæður viðskiptalífi EES-ríkjanna og kostur er en aðalsamningamaður EES við Breta er norskur. Bretland er stærsta viðskiptaland Noregs á eftir Evrópusambandinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV