Grét söltum tárum í pönnukökudeigið

Mynd: Helen Booth / Aðsend

Grét söltum tárum í pönnukökudeigið

23.11.2020 - 13:24

Höfundar

Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur gat ekki lengur gengið eða haldið á kaffibolla þegar hún greindist með skæða liðagigt sem knúði hana til að breyta algjörlega um lífsstíl. Fyrst var breytingin erfið þegar glútenlausu pönnukökurnar litu út eins og gubb, en núna nýtur hún áskorunarinnar. Hún er að leggja lokahönd á skáldsögu og kvikmyndahandrit.

Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur og fyrrverandi sjónvarpsþula er uppalinn Húsvíkingur. Hún kíkti í Mannlega þáttinn og sagði frá uppeldinu, veikindum sem hún hefur glímt við og þeim verkefnum sem hún er í þessa dagana.

Seldi kakó í sjoppunni og var alltaf kalt

Þó umhverfið á Húsavík sé dásamlegt og náttúran falleg þá var margt sem hún saknaði þegar hún bjó þar. Til dæmis hafði hún sem stelpa gaman af dansi en dansskóli var aðeins í boði einu sinni á ári í viku í senn. „Mig langaði að gera fullt af hlutum sem krakkar í Reykjavík gátu gert en ekki ég. Ég var alveg ofboðslegur bókaormur en var eini krakkinn sem gat ekki staðið á skíðum,“ segir hún. „Ég seldi kakó í sjoppunni í staðinn til að geta verið í félagsskapnum. En svo var mér alltaf kalt.“

Hún tók þó virkan þátt í leikfélaginu og var í litlum sönghópi en segir að það hafi ekki átt við sig að ganga um fjörur, láta hugann reika og tína skeljar eins og margir gerðu í bænum. Hún nýtur sín best í mannmergð og stuði.

Hjálpaði pabba að framkalla ljósmyndir

Sigríður varði töluverðum tíma með föður sínum á ljósmyndastofu hans, Ljósmyndastofu Péturs, sem er sú elsta á landinu og er enn starfrækt. „Ég ólst mikið til upp á stofunni með honum og hafði gaman af því að hjálpa honum að framkalla myndirnar, taka þær upp úr vökvarnum þegar þær voru passlegar, áður en þær urðu of dökkar.“

Sjálf hefur hún áhuga á ljósmyndun en hún náði ekki almennilegum tökum á henni fyrr en hún eignaðist snjallsíma. „Allt í einu fannst mér auðvelt að taka myndir og varð alveg sjúk. Ég hef verið með ljósmyndadellu síðan.“

Varð loks skítsama hvað öðrum fannst

Sigríður fór í Menntaskólann á Akureyri en flutti svo til Reykjavíkur. Hana langaði að læra myndlist, tónlist eða leiklist en þorði ekki að sækja um í slíkt nám því hún var svo viss um að vera ekki nógu góð til að fá inngöngu. Hún skráði sig því í Kennaraháskólann og lærði að verða handavinnukennari. „Ég fékk sjálfstraustið um fimmtugt,“ segir hún. „Þegar manni verður skítsama hvað öllum finnst um mann þá verður gaman að lifa.“

Þorði ekki að segja vinunum að hún væri að horfa á Ingmar Bergmann án glimmeraugnskuggans

35 ára gömul flutti hún til Svíþjóðar til að læra kvikmyndafræði. Hún hafði enda alltaf verið áhugasöm um kvikmyndalistina. „Ég var svo mikið nörd að ég lokaði mig inni og horfði á Þætti úr hjónabandi með mömmu og pabba á miðvikudögum. Ég sagði vinum mínum að ég væri að gera eitthvað annað. Ég þorði ekki að segja þeim að ég væri að horfa á Ingmar Bergmann þegar ég átti að vera komin með glimmeraugnskuggann.“

Margir höfðu sagt Sigríði að það væri lítill möguleiki á að fá vinnu með kvikmyndafræðigráðu en henni tókst að afsanna það. Hún fékk vinnu á Rás eitt þar sem hún var meðal annars með kvikmyndaþætti og svo var hún með kvikmyndarýni í Mósaík á RÚV. Hún kom víða við í innlendri dagskrárgerð. Í mörg ár var hún í Kviku, Djöflaeyjunni og Menningunni.

Eftir að hún hætti hjá RÚV flutti hún til London og einbeitti sér að skriftum. Eftir sjö ára dvöl í London fékk Garðar eiginmaður Sigríðar stöðu á Íslandi og þau fluttu aftur heim en hún saknar London alltaf. „Ég bjó í Hampstead og það er London sem margir þekkja ekki. Þar eru grænir skógar, garðar, dásamlegt mannlíf og æðisleg veitingahús.“

Gat ekki gengið eða haldið á kaffibolla

En Sigríður er með ýmis járn í eldinum eins og komið hefur fram. Hún kláraði nýverið fyrsta uppkast að skáldsögu, er búin með eitt kvikmyndahandrit og er í nokkrum verkefnum sem ekki má enn greina frá. Hún hefur líka verið að þróa uppskriftir sem urðu til eftir að hún veiktist og var knúin til að breyta mataræði sínu.

Hún greindist með mjög skæða liðagigt sem lagðist verulega þungt á hana. „Ég var hætt að geta lyft kaffibolla ég var svo bólgin á fingrunum og gat ekki gengið lengur,“ rifjar Sigríður upp. Eftir greininguna setti hún sig í samband við íslenska konu, Hildi M. Jónsdóttur, sem hafði hjálpað fólki að ná heilsu með nýjum lífstíl. Sigríður tók glúten, kaffi, sykur, gerviefni, mjólkurvörur og kjöt úr fæðunni og það var ekki auðvelt til að byrja með.

Pönnsurnar litu út eins og gubb

„Ég hef alltaf verið rosalegur sælkeri og maður hættir ekkert að vera það,“ segir hún. Til allrar hamingju er hún gift kokki sem hefur hvatt hana til að fara nýjar leiðir í þessum nýja lífstíl og nú er henni farið að þykja áskorunin skemmtileg. „Það voru tárin sölt í pönnsunum sem ég var að gera fyrst úr þessum efnum sem ég mátti nota og urðu bara eins og gubb. En núna er ég farin að geta boðið fólki upp á alls kyns kökur og dót.“

Rætt var við Sigríði Pétursdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fann föður sinn aftur fyrir ótrúlega tilviljun

Bókmenntir

Óttaðist að skilnaðurinn myndi skemma börnin