Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Félag fréttamanna gagnrýnir niðurskurð á fréttastofu

23.11.2020 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Félag fréttamanna gagnrýnir þann niðurskurð sem fréttastofa RÚV stendur nú frammi fyrir. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að það skjóti skökku við að skera þar niður á sama tíma og neyðarástand ríki og aukin krafa sé um stöðugar og traustar fréttir.

„Þegar dregið er úr getu fjölmiðla til að stunda gagnrýna blaðamennsku er hætta á að aðgengi almennings að nákvæmum og greinargóðum upplýsingum skerðist. Þetta er sérstaklega hættulegt á tímum upplýsingaóreiðu,“ segir í yfirlýsingu Félags fréttamanna.

 

Uppsagnir þriggja fréttamanna hafa þegar tekið gildi. Um áramótin verður starfshlutfall nokkurra til  viðbótar skert og samningar við aðra verða ekki framlengdir. Allt í allt tapast níu stöðugildi sem er tæplega fimmtungur fréttamanna á fréttastofunni. 

 

„Félag fréttamanna harmar uppsagnir vandaðra fréttamanna, þar á meðal starfsmanns með rúmlega aldarfjórðungs starfsaldur hjá stofnuninni. Sá hefur átt í viðræðum við yfirstjórn RÚV vegna vangoldinna yfirvinnugreiðslna, sem hann sannarlega hefur átt rétt á. Félagið setur spurningamerki við að starfsmaður sem barist hefur fyrir réttmætum kjörum sínum fái uppsagnarbréf áður en það mál er til lykta leitt,“ segir í yfirlýsingunni.

 Fleiri starfsmenn eiga í sömu kjaradeilu við RÚV.

Félag fréttamanna skorar á yfirstjórn RÚV að endurskoða boðaðan niðurskurð á fréttastofunni og skorar á stjórnvöld að sjá til þess að geta RÚV til að sinna almannavarnahlutverki sínu verði ekki skert.

 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV