Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Engar björgunarþyrlur til taks í tvo daga

23.11.2020 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Engar björgunarþyrlur hjá Landhelgisgæslunni verða til taks í að minnsta kosti tvo daga frá miðnætti á miðvikudag vegna viðhaldsvinnu. Erfiðlega hefur gengið að sinna viðhaldsverkefnum vegna verkfalls flugvirkja.

Landhelgisgæslan rekur þrjár björgunarþyrlur, TF Líf, TF Gró og TF Eir. Aðeins ein þeirra, TF Gró, hefur verið í notkun að undanförnu en hún þarf að fara í reglubundið viðhald í þessari viku sem tekur að minnsta kosti tvo daga. TF Líf er í langtímaviðhaldi og ekki hefur verið hægt að sinna viðhaldi á TF Eir vegna verkfalls flugvirkja.

Mbl greindi fyrst frá.

Fundur samninganefnda flugvirkja og ríkisins með ríkissáttasemjara hófst á tólfta tímanum í morgun.

Flugvirkjar, sem vinna sem spilamenn, eru ekki í verkfalli og þeir geta sinnt viðhaldi á TF Gró.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við fréttastofu að það muni taka að minnsta kosti mánuð að ljúka viðhaldsvinnu á TF Eir þegar verkfalli flugvirkja lýkur. Því verður aðeins ein björgunarþyrla í notkun fram að jólum og jafnvel fram yfir áramót ef ekki nást samningar í kjaradeilu flugvirkja við ríkið á næstu dögum.

Von er á nýrri björgunarþyrlu hingað til lands í janúar á næsta ári þegar TF Líf verður seld til útlanda.