Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ekkert samkomulag á fundi flugvirkja og ríkisins

23.11.2020 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Hreggviður Símonarson - Landhelgisgæslan
Ekkert samkomulag náðist á fundi samninganefnda flugvirkja og ríkisins hjá ríkissáttasemjara í dag. Fundinum lauk á fimmta tímanum.

Fundurinn hófst á tólfta tímanum í morgun og stóð í rúmar fimm klukkustundir.

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni hafa verið í verkfalli frá 5. nóvember. 
Deilan snýst um tengingu samnings flugvirkja Gæslunnar við samning flugvirkja Icelandair.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs fundar.

„Það finna allir þétt til ábyrgðar í þeirri erfiðu stöðu sem er komin upp. Við náðum ekki niðurstöðu í dag og höfum ekki fyrirheit um niðurstöðu eins og sakir standa. En að sjálfsögðu höldum við samstarfinu áfram,“ segir Aðalsteinn.

Verkfall flugvirkja er byrjað að hafa áhrif á þyrluflota Gæslunnar. Engin björgunarþyrla verður tiltæk í að minnsta kosti tvo daga í lok þessarar viku vegna viðhaldsvinnu. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV