Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Bláa veiran“ á niðurleið – fylgjast vel með jólagestum

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
„Bláa veiran“ sem hefur verið drifkrafturinn í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins er á hraðri niðurleið. Nýir stofnar hafa greinst og valdið nokkrum litlum hópsýkingum. Í flestum tilvikum er hægt að rekja þessa veirustofna til landamærasmits. Yfirlögregluþjónn hvetur þá Íslendinga sem búsettir eru erlendis sem vilja halda jólin heima að huga vel að tímarammanum. Vilji þeir ekki vera í sóttkví á aðfangadag verði þeir að vera komnir til landsins fyrir 18. desember.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Aðeins greindust þrír með veiruna í gær og voru tveir þeirra þegar í sóttkví. Óvenju fá sýni voru tekin í gær, hafa ekki verið færri síðan um miðjan júní.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði þriðju bylgjuna vera komna vel niður og vonandi myndi svo reynast áfram. Næstu dagar myndu skera úr um hvort tölurnar um helgina myndu raungerast.  Allir sem hefðu minnstu einkenni væru áfram hvattir til að fara í sýnatöku því það væri lykilatriði.

Þórólfur sagði raðgreiningu veirunnar sýna að „blái stofninn“ svokallaði, sem greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst, væri á hraðri niðurleið.  Nú væru teknir að birtast nýir stofnar sem í flestum tilvikum væri hægt að rekja til landamærasmits.  Þó væri ein hópsýking þar sem ekki væri hægt að rekja upprunann og að væri ákveðið áhyggjuefni. 

Þórólfur vildi þó ekki gera of mikið úr þessari hópsýkingu því þriðja bylgjan samanstæði af mörgum litlum hópsýkingum hjá fyrirtækjum, vinahópum og fjölskyldum.

Þórólfur reiknar með að skila tillögum um næstu skref fyrir helgi en núgildandi reglugerð fellur úr gildi 1. desember.  „Það eru margir sem vilja halda hörðum aðgerðum og margir sem vilja slaka á. Vonandi verða bara margir sammála því sem ég legg til. Það er ástæða til einhverra tilslakana þegar vel gengur en auðvitað erum við líka alltaf að taka einhverja áhættu með því og þannig verður það áfram.“

Hann lagði áherslu á að áfram yrði gott eftirlit með fólki sem kæmi til landsins frá útlöndum, það þyrfti að skima vel í kringum þá einstaklinga sem væru að greinast þar og gæta þess að smit berist ekki út í samfélagið. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, tók þennan bolta á lofti og sagði að miðað við farþegaspár væri von á fleiri farþegum í kringum jólin, til að mynda námsmönnum sem vildu halda jólin heima. „Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á þessum tímaramma. Þeir þurfa að vera komnir til landsins í síðasta lagi 18. desember ef þeir vilja ekki vera í sóttkví um jólin.“ Hann sagði embættið vel undirbúið  og grannt yrði fylgst með farþegaspám sem berist reglulega. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV