Baggalútur - Kveðju skilað

Mynd: Baggalútur / Kanada

Baggalútur - Kveðju skilað

23.11.2020 - 14:30

Höfundar

Platan Kveðju skilað með Baggalúti kom út nýlega og inniheldur 13 ný lög við kvæði eftir vestur-íslenska skáldið Káinn og er framhald af plötunni Sólskinið í Dakota. Platan er tólfta breiðskífa fjöllistahópsins sem komst nýlega í hóp framúrskarandi fyrirtækja annað árið í röð.

Fjöllistahópurinn og útgáfufyrirtækið Baggalútur hefur allt frá stofnun notið töluverðrar hylli meðal landsmanna. Fyrsti geisladiskur Baggalúts, Pabbi þarf að vinna, kom út fyrir fimmtán árum og innihélt alíslenska kántrítónlist, með glúrnum og ljúfsárum textum. Plötunni var vel tekið og hlaut titillag plötunnar Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir besta lag og texta ársins. Árið 2006 kom svo hljómskífan Aparnir í Eden. Þar heldur Baggalútur sig enn á slóðum kántrísins sem þeir krydda með svefndrukkinni tónlist Hawaiibúa. Aparnir í Eden hlaut síðan Íslensku tónlistarverðlaunin sem besta hljómplatan árið 2007. Sama ár kom fyrri jólaplata Baggalúts, Jól og blíða og ári síðar kom svo samkvæmisskífan Nýjasta nýtt og 2009 hin þjóðlagaskotna Sólskinið í Dakota, sem innihélt lög við ljóð vesturíslenskra skálda. Árið 2010 kom svo út önnur jólaplata sveitarinnar, Næstu jól, og í fyrra Jólaland auk þess sem nýlega kom út jólalagið Það koma samt jól.

Á nýju plötu Baggalúts Kveðju skilað tekur Kristján Níels Jónsson (1860–1936) sviðið. Hann var fæddur á Íslandi, en settist að í Vesturheimi 1878 og tók þar upp ættarnafnið Júlíus. Hann kallaði sig jafnan Káinn (K.N.) og varð þekktur fyrir gamansöm kvæði sín og kviðlinga. Káinn bjó í Pembina sýslu í Norður-Dakota og var lengst af vinnumaður hjá Hall-fjölskyldunni. Þar bjó Christine Hall, sem Káinn orti um eina af vísum sínum um börnin í sveitinni, Stínu litlu. Baggalútur var á Íslendingaslóðum árið 2008 og hitti þá Christine, en hún varð svo 100 ára, þann 5. júní 2009. Af því tilefni færði Baggalútur henni plötuna Sólskinið í Dakota að gjöf, þar sem finna má lagið um hana, auk fleiri laga við kvæði Káins. Hún lést árið 2015, þá 106 ára gömul.

Hundrað og sextíu ár eru frá fæðingu Káins og af því tilefni hljóðritaði Baggalútur 13 ný lög eftir Braga Valdimar við úrval kvæða hans. Lausum vísum hefur víða verið raðað saman og þær bundnar í eina heild, önnur lög byggjast á heilum kvæðum. Einfaldleikinn fékk sem fyrr að ráða för í útsetningum, svo að orð Káins fengju að að njóta sín sem best og hljóma á nýrri öld.

Ný plata Baggalúts, Kveðju skilað, er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Braga Valdimars á lögum plötunnar eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Baggalútur - Kveðju skilað
Baggalútur - Kveðju skilað